Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 27. október 2022 11:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri í viðræðum við Val - „Stutt í fótbolta hjá mér"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Staðan á mér er fín, ég er að jafna mig á krossbandaslitinu og er nánast klár í að byrja aftur. Það eru átta mánuðir síðan ég fór í aðgerð," sagði Andri Adolphsson við Fótbolta.net í dag.

Andri sleit krossband í leik á undirbúningstímabilinu í febrúar og missti af öllu tímabilinu í ár.

Andri er þrítugur Skagamaður sem hefur verið á mála hjá Val frá árinu 2015. Hann missti af nánast öllu tímabilinu 2020 vegna höfuðmeiðsla og spilaði átta deildarleiki tímabilið 2021.

„Það er mjög stutt í fótbolta hjá mér," sagði Andri en hann er að renna út á samningi hjá Val. Veit hann hvar hann mun spila á næsta tímabili?

„Nei, ekki ennþá. Ég er í viðræðum í Valsarana eins og er og önnur lið hafa sýnt áhuga. Það á bara eftir að koma í ljós, væntanlega á næstu dögum eða vikum," sagði Andri og staðfesti að ÍA væri eitt af þeim liðum sem sýnt hefðu áhuga.

Horfir Andri í að spila í efstu deild eða er hann opinn fyrir öllu?

„Það er í rauninni allt opið. Auðvitað liggur metnaður minn í efstu deild, vil spila þar, en mín staða er þannig að ég held öllu opnu."

Andri er orðinn góður af höfuðmeiðslunum erfiðu. „Það var 2020 og tók langan tíma, það er algjörlega farið eftir góða endurhæfingu. Ég hef náð að losa mig við það og þetta hefur ekki haft áhrif síðan," sagði Andri.
Athugasemdir
banner
banner
banner