„Mín fyrstu viðbrögð eru svekkelsi. Við byrjuðum leikinn mjög illa og vorum á hælunum, en það er líka hægt að segja það að þeir eru með gott lið og góða leikmenn hér og þar," sagði Jón Gísli Eyland Gíslason, leikmaður ÍA, eftir tap gegn Derby County í Evrópukeppni unglingaliða.
ÍA tapaði 4-1 á Pride Park í kvöld eftir að hafa tapað fyrri leiknum 2-1; því eru samanlögð úrslit 6-2 og ÍA úr leik.
„Þeir eru með góða, sterka leikmenn í öllum stöðum og kannski voru þeir of stór biti fyrir okkur."
Skagamenn tóku góðan hring á vellinum eftir leikinn.
„Þeir þökkuðu okkur fyrir árið, þetta er búið að vera langt tímabil. Við getum ekki verið annað en stoltir af þessu, að spila á svona á velli og spila á móti svona liði. Þetta eru forréttindi og við eigum að vera stoltir. Það er alltaf gaman að spila á svona völlum, grasið gott og blautt."
Sagan segir að Jón Gísli gæti verið á leið út í atvinnumennsku. Spurður út í það hvort hann verði áfram í ÍA, þá sagði hann: „Við sjáum til."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir