Kólumbíski framherjinn Jhon Duran er á leið til sádi-arabíska félagsins Al Nassr frá Aston Villa fyrir 64,5 milljónir punda en þetta fullyrðir Athletic í dag.
Viðræður Al Nassr og Aston Villa eru á lokastigi en félögin hafa þegar komist að samkomulagi um kaupverð og á aðeins eftir að ganga frá fáeinum atriðum.
Duran, sem er á bekknum hjá Villa gegn Celtic í Meistaradeildinni, mun á morgun halda í læknisskoðun hjá Al Nassr. Hún fer fram í Lundúnum og í kjölfarið mun hann skrifa undir langtímasamning við sádi-arabíska félagið.
Kaupverðið er 64,5 milljónir punda og ætti allt að vera frágengið um helgina.
Al Nassr er nú formlega hætt að eltast við nígeríska sóknarmanninn Victor Boniface sem er á mála hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi og þá þýðir þetta að möguleikar Arsenal á að fá Ollie Watkins frá Villa séu litlir sem engir.
Arsenal lagði fram 60 milljóna punda tilboð í Watkins í dag en Villa, sem var ósátt með tímasetningu tilboðsins, hafnaði því samstundis.
Athugasemdir