Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 29. mars 2020 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Berglind Björg: Sumir dagar erfiðari en aðrir
Berglind í leik gegn Val síðasta sumar.
Berglind í leik gegn Val síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg Þorvaldsdóttir segir í viðtali við RÚV að kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á sitt líf.

Berglind er í láni hjá AC Milan á Ítalíu frá Breiðabliki. Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar á Ítalíu eru nú orðin meira en tíu þúsund talsins, og þá eru rúmlega 92 þúsund smitaðir.

Ástandið er virkilega slæmt og hefur Lombardy-hérað þar sem Mílanó er, komið mjög illa út úr faraldrinum. Berglind segir: „COVID-19 hefur bara haft gríðarlega mikil áhrif á mitt líf. Ég er núna búin að vera innilokuð í um þrjár vikur og við megum í rauninni bara fara út í búð eða í apótekið."

„Maður heldur sér bara í standi með því að gera heimaæfingar þar sem það má ekki fara út að hlaupa eða gera neitt."

Andlega er þetta erfitt fyrir íslenska landsliðsframherjann. „Sumir dagar eru erfiðari en aðrir en maður reynir að plana kannski daginn áður hvað maður getur gert og setja sér einhver svona lítil markmið bara til þess að halda manni í ágætis rútínu. Það er áskorunin sem maður hefur verið að glíma við síðustu daga."

Búin að spila sinn síðasta leik fyrir Milan?
Berglind hafði spilað vel með Milan og skorað fimm mörk í fimm deildarleikjum áður en deildin á Ítalíu var stöðvuð. Hún veit ekki hvort hún hafi leikið sinn síðasta leik með Milan.

„Það náttúrulega veit enginn hvað gerist á næstu dögum og ég veit ekki ennþá hvort ég sé búin að spila minn síðasta leik fyrir AC Milan eða fara á mína síðustu æfingu," segir Berglind, en planið er að hún komi aftur heim til Íslands í maí til að spila með Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna.

Ljóst er að Íslandsmótið hefst ekki fyrr en um miðjan maí - í fyrsta lagi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner