„Við töpuðum á móti betra liði í dag. Punktur og basta. Stjarnan var betri en það fór bara 1-0 og það var alltaf séns að kroppa í eitt stig. Þetta var bara skemmtilegur og spennandi leikur þannig lagað séð,“ sagði Þórhallur Víkingsson, þjálfari HK/Víkings eftir eins marks tap gegn Stjörnunni á heimavelli fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: HK/Víkingur 0 - 1 Stjarnan
„Við vorum undir, í fyrri hálfleik sérstaklega. Stjarnan komu bara virkilega vel stemmdar og baráttuglaðar í þennan leik og voru svolítið yfir í fyrri hálfleik í baráttun og það skildi á milli,“ sagði Þórhallur en liðið hans hefur verið í erfiðu leikjaprógrammi og spilað skipulagaðan fótbolta án þess þó að ná að hala inn stig síðan í fyrstu umferð. Þórhallur hefur engar áhyggjur af nýliðunum og bendir á að um hörkuleiki hefur verið að ræða þar sem ekki hefur mikið skilið á milli.
„Við erum búnar að vera inní öllum þessum leikjum. Eins og leikurinn í dag. Þótt við höfum verið verri aðilinn þá eigum við alltaf séns á að kroppa í stig þegar staðan er bara 1-0,“ sagði Þórhallur meðal annars og sagði að það væri mikil tilhlökkun hjá liðinu fyrir öllum leikjum.
„Það er frábært að vera í Pepsi. Okkur hlakkar til hvers leiks.“
Nánar er rætt við þjálfarann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























