banner
   fim 29. júlí 2021 07:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Varane minnir mig á Rio Ferdinand"
Raphael Varane.
Raphael Varane.
Mynd: EPA
Patrice Evra, fyrrum bakvörður Manchester United, er gríðarlega ánægður með það að sínir gömlu félagar eru að ganga frá kaupum á franska miðverðinum Raphael Varane.

Það var tilkynnt fyrr í þessari viku að Man Utd væri búið að ná samkomulagi við Real Madrid um kaup á Varane.

Varane er talinn meðal bestu miðvarða heims og hefur myndað gríðarlega öflugt miðvarðapar með Sergio Ramos hjá Real Madrid undanfarin ár. Hann hefur unnið spænsku deildina þrisvar sinnum, Meistaradeildina fjórum sinnum og svo varð hann heimsmeistari með Frökkum 2018.

„Varane minnir mig á Rio Ferdinand. Hann er frábær á boltanum, frábær í loftinu," sagði Evra við The Athletic og bætti við: „Hann hefur allan pakkann."

Evra spilaði með Varane í franska landsliðinu og þekkir kauða ágætlega. „Þetta eru kaup í hæsta gæðaflokki hjá Manchester United," segir Evra.
Athugasemdir
banner
banner
banner