
„Þetta var bara lélegur leikur af okkar hálfu og við áttum lítið sem ekkert skilið úr þessum leik. Mér fannst Þróttarar vilja þetta meira en við í dag og það er áhyggjuefni. “ Voru fyrstu orð Helga Sigurðssonar þjálfara Grindavíkur eftir 2-1 tap hans manna gegn Þrótti á Stakkavíkurvellinum í Grindavík fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 2 Þróttur R.
Grindavíkurliðið hefur oft sýnt betri leik en það gerði í kvöld og var Helgi langt í frá sáttur með þá frammistöðu sem að liðið sýndi á vellinum í kvöld.
„Að lið Grindavíkur í þessari deild hafi ekki meiri manndóm en það að vinna fleiri baráttur á vellinum. Þeir vinna nánast allt. Þeir voru ákveðnari. þeir unnu fyrsta bolta, annan bolta og jafnvel þriðja boltann í gríð og erg. Það var stutt í pirringinn hjá okkur og auðvitað er þetta áhyggjuefni að við náum litlum dampi hér á heimavelli þegar það gengur mjög vel á útivelli. “
Helgi var þó með svörin á reiðum höndum hvað þyrfti að gera til þess að rétta skútuna af og var ómyrkur í máli.
„Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga í hvelli ef við ætlum að gera eitthvað í þessari deild. Það sem maður reynir að benda mönnum á er að það þýðir ekkert að vera vorkenna sjálfum sér. Við erum þeir einu sem getum snúið þessu við og menn verða bara að byrja núna. Það kemur núna tólf daga hlé fram að næsta leik og menn þurfa að sýna meiri karakter og rífa sig í gang en ekki bíða eftir að næsti maður geri það.“
Sagði Helgi en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir