Góðvinirnir Mikel Arteta og Andoni Iraola mætast á hliðarlínunni í dag er Bournemouth tekur á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.
Iraola segist vera spenntur að mæta æskuvini sínum Arteta, en þeir ólust báðir upp á Gipuzkoa svæðinu í norðurhluta Spánar. Það er sama svæði og ól Julen Lopetegui og Unai Emery af sér, auk Xabi Alonso sem er að gera frábæra hluti hjá Bayer Leverkusen. Hann er sterklega orðaður við þjálfarastöðuna sem losnar hjá Real Madrid næsta sumar.
Iraola, Arteta og Alonso eru á mjög svipuðum aldri og léku fyrir áhugamannafélagið Antiguoko á sama tíma. Þar ólust þeir upp saman og voru liðsfélagar í sex ár.
„Þetta voru frábærir tímar. Við kynntumst þegar við vorum átta, níu eða tíu ára gamlir og okkur fannst gaman í fótbolta. Þetta voru einfaldari tímar þar sem maður fór á ströndina með vinum sínum að leika sér í fótbolta. Við bjuggumst ekki við að ná svona langt í íþróttinni, við vorum bara krakkar að leika okkur," sagði Iraola við BBC.
„Það verður virkilega gaman að sjá Mikel aftur og mæta honum á vellinum. Hann var stórkostlegur fótboltamaður, hann var augljóslega besti leikmaðurinn í Antiguoko og var fyrstur af okkur til að yfirgefa félagið þegar hann skrifaði undir samning við Barcelona. Við höfum verið ótrúlega heppnir með fótboltaferil og erum núna orðnir þjálfarar. Það er ótrúlegt að hugsa út í það.
„Mikel hefur verið að standa sig frábærlega hjá Arsenal og tókst næstum að gera þá að meisturum á síðustu leiktíð. Við erum að mæta virkilega sterku fótboltaliði og þurfum að vera uppá okkar besta til að fá eitthvað úr þessum leik."
Bournemouth hefur átt erfiða byrjun á nýju úrvalsdeildartímabili undir stjórn Iraola, en það kom mörgum á óvart þegar Spánverjinn var ráðinn í sumar. Gary O'Neil var látinn fara þrátt fyrir að hafa bjargað Bournemouth frá falli á síðustu leiktíð.
Liðið er aðeins komið með þrjú stig eftir sex umferðir eftir að hafa átt gríðarlega erfitt leikjaprógram á upphafi tímabils, þar sem Brighton, Liverpool, Tottenham og Chelsea hafa verið meðal andstæðinga.
„Það er margt sem við þurfum að bæta en ég hef nú þegar séð miklar framfarir frá því að ég tók við. Fótbolti er gríðarlega flókin íþrótt þar sem maður þarf að aðlagast aðstæðum hverju sinni."
29.09.2023 12:30
Arteta mætir góðum vini sínum - „Þekkjum hvorn annan mjög vel"
Athugasemdir