Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 30. nóvember 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Komu Mihajlovic á óvart - „Gera allt til að sleppa við æfingar"
Sinisa Mihajlovic.
Sinisa Mihajlovic.
Mynd: Getty Images
Sinisa Mihajlovic, þjálfari ítalska liðsins Bologna, er að glíma við hvítblæði. Þrátt fyrir erfið veikindi heldur hann áfram að stýra sínu liði eins og hann getur.

Hann ræddi í fyrsta sinn í gær við fjölmiðlamenn eftir að hann greindist með veikindin fyrir fjórum mánuðum síðan.

Hinn fimmtugi Mihajlovic hefur verið í lyfjameðferð, en hann hefur stýrt liðunum í leikjum þegar hann fær leyfi frá læknum til þess.

Hann mætti á blaðamannafund í gær, en leikmenn hans komu honum á óvart með því að mæta á fundinn. Þegar hann sá þá, þá sagði hann léttur: „Þeir gera allt til að sleppa við æfingar."

Fyrirliðinn Blerim Dzemaili sagði: „Það er of lítið að segja að við höfum saknað þín. Við erum mjög ánægðir að þú sért hérna með okkur."

Bologna er í 15. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og Mihajlovic vill fá meira frá leikmönnum sínum.

„Ég er reiður og frá og með núna verða þeir að gefa 200%. Þeir verða að fara að ná í stig og byrja að hlaupa aftur."

Bologna á útileik gegn Napoli á sunnudaginn.

Reynir að sannfæra Zlatan
Mihajlovic sagði frá því á fundinum að hann væri að reyna að fá Zlatan Ibrahimovic til Bologna.

Zlatan er 38 ára gamall og er hann fáanlegur á frjálsri sölu eftir að hafa síðast leikið með LA Galaxy í MLS-deildinni. Hann þekkir vil til á Ítalíu eftir að hafa leikið með Juventus, AC Milan og Inter fyrr á ferli sínum.

„Við töluðum saman fyrir mánuði síðan, síðast fyrir tíu dögum. Við sjáum til hvað gerist," sagði Mihajlovic.

Mihajlovic er að reyna að sannfæra Zlatan um að koma til Bologna, en hann sagði einnig: „Ég skil að það eru aðrir möguleikar."

Zlatan hefur einnig verið orðaður við endurkomu til AC Milan.

Allir vilja berjast fyrir hann
Miðjumaðurinn efnilegi Andri Fannar Baldursson er á mála hjá Bologna og hefur hann verið að æfa með aðalliðinu.

„Mihajlovic er með hvítblæði. Hann hefur mætt á tvær til þrjár æfingar svona inn á milli. Hann er mjög harður og mikill sigurvegari. Hann fylgist alltaf vel með sama hvort hann sé á sjúkrahúsinu eða heima hjá sér og segir alltaf sína skoðun á stöðu mála," sagði Andri við Fótbolta.net um Mihajlovic.

Hann sagði einnig: „Fyrir leiki reyna aðstoðarmennirnir að heyra í honum á Facetime og hann kemur með nokkur orð. Allir vilja berjast fyrir hann."
Athugasemdir
banner