Tottenham og Newcastle hafa áhuga á Grealish - Newcastle bjartsýnt á að fá Guehi - Elanga í læknisskoðun
   mið 31. mars 2021 19:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Györ, Ungverjaland
Davíð Snorri: Það eru góðir fótboltamenn á leiðinni
Erum ekkert sáttir með það að tapa leikjunum
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 árs landsliðsins, sat fyrir svörum á fréttamannafundi eftir 0-2 tap gegn Frakklandi.

Ísland tapaði þremur leikjum í mótinu en sýndi á köflum mjög flotta kafla. Hér má sjá svör Davíðs við spurningum fréttamanna.

Varðandi uppspilið og sóknarleikinn. Hefði mátt gera meira til að spila Andra oftar frían á miðsvæðinu?

„Við lögðum þetta upp þannig að Róbert fengi boltann aðeins meira og Andri skildi vera klókur á bakvið framherjana þeirra að finna sér svæði og þaðan kæmi hlaup. Þegar við gerðum það þá gerðum við það mjög vel. Það er samt þannig að auðvitað langar okkur að gera eins og vel og við getum með boltann. Þegar einbeitingin er mikil á varnarleikinn og að hlaupa mikið þá er oft erfitt að vera á fullu að hlaupa og djöflast yfir í það að róa sig með boltann en það lærist. Ég verð að hrósa okkur fyrir þau augnablik sem við náðum að fylgja þessu uppleggi.“

Hvernig líturu á þennan leik í samanburði við hina tvo leikina?

„Við erum ekkert sáttir með það að tapa leikjunum, svo það sé alveg á hreinu. Mér fannst og finnst við eiga mjög góð moment. Við eigum líka kafla þar sem við þurfum að læra af, erfiða kafla. Við vorum einbeittir en á þessu hæsta leveli þá er okkur refsað fyrir minnstu mistök og það þarf enn minni mistök í A-landsliðinu. Menn geta tekið mikið út úr þessari keppni.“

Voru andstæðingar okkar í mótinu sterkari en þú bjóst við?

„Nei, þeir voru ekkert sterkari en ég bjóst við. Þetta voru frábær lið, öll liðin.“

Hvernig spilaðist mótið miðað við ykkar væntingar?

„Við fórum ekkert leynt með það að við ætluðum að taka fleiri skref saman, það væru fleiri leikir í maí sem við ætluðum að ná saman. Við lögðum upp með það. Við lögðum líka upp með að læra af leikjunum, burtséð frá úrslitunum. Þetta er síðasta skrefið fyrir A-landsliðið og við fengum stærsta sviðið í fangið. Við reynum að taka allt sem við upplifuðum og sáum til að taka með okkur.“

Einbeitingaleysi í mörkunum, miðjumenn fylgja ekki mönnunum sínum og ekki í fyrsta sinn í mótinu. Pirrandi að fá svona mörk á sig?

„Varðandi mörkin vorum við búnir að æfa ákveðnar færslur því við vorum búnir að skoða Frakkana vel. Auðvitað viljum við koma í veg fyrir mörkin en það koma lítil moment og okkur var refsað fyrir minnstu mistök í þessu móti. Við urðum betri og betri þegar leið á í leikjunum. Við verðum að læra af þessu.“

Sjö leikmenn sem byrjuðu í dag sem eru gjaldgengir í næstu undankeppni og tveir sem koma inn á. Var það planað?

„Eins og allir vita urðu breytingar á hópnum okkar. Ég er búinn að segja það allan tíma að við erum með mjög flotta stráka, góðan hóp, menn voru klárir og hentuðu í dag. Vissulega voru margir ungir og það er bara hið besta mál.“

Hverjar voru væntingarnar fyrir leikinn í kvöld?

„Síðasti leikur í mótinu, við ætluðum að maxa allt, reyna fá allt út úr leiknum. Skilja allt eftir á vellinum og spyrja okkur spurninga. Við ætluðum að skora mörk og með góðri frammistöðu reyna fá úrslit.“

Hver var pælingin með þriggja/fimm manna vörn?

„Okkur fannst það, miðað við þann hóp sem var á staðnum að það myndi henta vel. Okkur fannst í lagi að bakverðirnir mættu vera með boltann, síðan kæmu ákveðnar kantfærslur. Að sama skapi vildum við setja tvo sentera upp því við vissum að þeir yrðu mikið með boltann. Svo hafa margir leikmenn spilað þetta leikkerfi, bæði með sínum liðum og í yngri landsliðum.“

Hvað finnst þér standa upp úr á mótinu?

„Við sýndum það að í erfiðum momentum, við sem landslið og knattspyrnuþjóð verðum alltaf að halda áfram og vinna okkur út úr erfiðum momentum. Sýna þetta einstaka hugarfar sem við höfum og við gerðum það. Við unnum okkur út úr mjög erfiðum köflum og við kláruðum allt alltaf eins mikið og við gátum. Þótt momentin hafi verið erfið þá unnum við okkur út úr því og reynum að taka það með okkur heim sem við getum lært. Að sama skapi var ég ánægður með að við sýndum á köflum í mótinu að við eigum góða fótboltamenn og það eru góðir fótboltamenn á leiðinni. Við sýndum okkar gildi.“

Fannst þér vera stígandi frá fyrsta leik?

„Mér fannst í öllum leikjunum bæði eitthvað gott og slæmt. Auðvitað muna menn eftir vondum kafla gegn Rússum og við byrjuðum illa gegn Dönum. Í öllum leikjum eru kaflar sem við getum tekið með okkur, hrósum okkur fyrir það og lærum af því eins og mistökunum og mörkunum sem við fengum á okkur. Fínt að klára það af hér áður en farið er í A-landsliðið,“ sagði Davíð.
Athugasemdir
banner