Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   fös 31. maí 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Salzburg
Segist ekki hafa unnið gegn Óskari - „Synd að honum líði svona"
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sancheev Manoharan.
Sancheev Manoharan.
Mynd: Haugesund
Óskar hætti sem þjálfari Haugesund fyrir stuttu.
Óskar hætti sem þjálfari Haugesund fyrir stuttu.
Mynd: Haugesund
„Það var mín tilfinning. Ef þú myndir spyrja hann þá myndi hann segja eitthvað annað. Þetta er tilfinning á móti tilfinningu. Menn verða bara að bera virðingu fyrir því hvernig mér leið og hvaða tilfinningu ég hafði gagnvart þessu verkefni á þeim tímapunkti sem ég tók þessa ákvörðun," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson í gær á Stöð 2 Sport er hann var spurður að því hvort honum hefði fundist aðstoðarþjálfarinn Sancheev Manoharan vinna gegn sér hjá norska félaginu Haugesund.

Óskar Hrafn hætti nýverið hjá Haugesund eftir að hafa stýrt liðinu í skamma stund. Í norskum fjölmiðlum var talað um valdabaráttu eftir að Óskar hætti.

„Stutta svarið er það að mér fannst ekki allir vera að ganga í takt hjá félaginu. Mér fannst ég vera að feta annan veg heldur en margir aðrir þarna og á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir mig að fara," sagði Óskar í gær.

Manoharan, sem tók við sem aðalþjálfari af Óskari, og Martin Fauskanger, framkvæmdastjóri Haugesund, hafa núna svarað þessum ummælum Óskars frá því í gær.

„Ég get ekki tjáð mig um tilfinningar Óskars þar sem þetta er hans túlkun á stöðunni. En það sem ég get sagt er með 100 prósent vissu er að hvorki ég né starfsliðið í kringum hann höfum gert eitthvað til að fara á móti Óskari, þvert á móti," segir Manoharan við TV2.

„Það fór af stað ferli innanbúðar í kringum þetta mál þar sem þetta var skoðað og það styður það sem ég er að segja. Hvorki ég né þjálfarateymið hefðum fengið starfið til frambúðar ef við hefðum farið á móti honum."

„Það er synd að honum líði svona. Núna viljum við líta fram á við. Ég ber mikla virðingu fyrir Óskari og ég óska honum alls hins besta," segir Manoharan.

Framkvæmdastjórinn tekur undir með nýráðnum þjálfaranum. „Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að Manoharan og aðrir úr þjálfarateyminu unnu ekki gegn Óskari. Manoharan studdi við hugmyndir Óskars. Það er synd að Óskari líði svona en við höfum ekkert nema gott um hann að segja."
Athugasemdir
banner
banner