
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna var að vonum svekktur eftir markalaust jafntefli sinna stúlkna gegn Belgíu í undankeppni EM 2013 í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 0 Belgía
„Við erum öll svekkt og líður svolítið eins og við höfum tapað. Þetta var nú samt jafntefli og við fengum eitt stig, en við lítum samt á þetta sem tvö töpuð stig,“ sagði Sigurður Ragnar við Fótbolta.net.
„Belgía mættu í raun bara til að fá eitt stig og fögnuðu vel að leikslokum. Þær bökkuðu vel í vörn og reyndu að tefja eins og þær gátu. Við vissum svosum að þær myndu reyna það en þeim tókst vel í varnarleiknum, ég get alveg hrósað þeim fyrir það. Þær náðu að loka vel á okkur, en engu að síður sköpuðum við okkur alveg helling af færum í leiknum. En þegar við nýtum þau ekki, þá endar þetta 0-0.“
„Mér fannst við ekki ná sama tempói í þessum leik og ekki sama flæði í spilinu og gegn Noregi, ef ég miða við fyrri hálfleikinn. Seinni hálfleikurinn fannst mér ekkert sérstaklega góður á móti Noregi nema varnarlega, en núna þurftum við náttúrulega að sækja til að brjóta á bak aftur lið sem er með 11 manns á bakvið boltann, það er oft erfitt. Mér finnst jákvætt að við sköpuðum fullt af færum en neikvætt að við nýttum ekki neitt.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.