Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   þri 24. apríl 2012 11:00
Þórður Már Sigfússon
Heimild: Minifootballnews.gr 
Elsti sonur Eiðs Smára vill feta í fótspor föður síns
Sveinn Aron er nánast eftirmynd föður síns.
Sveinn Aron er nánast eftirmynd föður síns.
Mynd: Minifootballnews.gr
Ættarnafnið Guðjohnsen hefur tengst íslenskri knattspyrnu og þá sérstaklega landsliðsbúningnum bláa, nánast órjúfanlegum böndum síðan Húsvíkingurinn Arnór Guðjohnsen steig fram á sjónarsviðið undir lok 8. áratugarins.

Hann var á sínum tíma einn besti og ástsælasti leikmaður þjóðarinnar og fór oft á tíðum fyrir landsliðinu með stórkostlegum tilþrifum, hvort sem það var á ósléttum Laugardalsvellinum í þá daga eða vel snyrtum völlum meginlands Evrópu.

Það var því mörgum knattspyrnuunnendum nokkur huggun þegar landsliðsferill Arnórs var að renna sitt skeið á enda að ungur sonur hans, Eiður Smári Guðjohnsen, var byrjaður að sýna fram á hæfileika sem jafnvel yfirgnæfðu fágæta getu föður hans.

Um knattspyrnuferil Eiðs Smára þarf vart að ræða enda flestir íslenskir unnendur boltans með þann söguþráð á hreinu. Hins vegar er öllum ljóst að það er farið að síga á síðari hluta þessa farsæla ferils.

En ekki örvænta því á hliðarlínunni stendur gutti á fjórtanda aldursári, Sveinn Aron Guðjohnsen, tilbúinn að taka við keflinu af karli föður hans, Eiði Smára.

Sveinn Aron, sem spilar nú um mundir með unglingaliði AEK Aþenu, lærði knattspyrnufræðin í akademíu Barcelona og því ljóst að hann hefur ótrúlegan grunn til að byggja á. Hann segir að takmarkið sé að feta í fótspor föðurs síns.

,,Takmarkið er að eiga feril svipaðan þeim sem pabbi hefur átt. Að spila meðal þeirra bestu með liðum á borð við Chelsea og Barcelona. Helsti draumurinn er að spila fyrir Chelsea,” sagði Sveinn Aron í samtali við gríska vefmiðilinn Minifootballnews.gr.

Þrátt fyrir að hafa verið á mála hjá barna- og unglingaliðum Barcelona liggur tryggðin hjá Chelsea þar sem faðir hans spilaði í rúm sex ár.

,,Ég er stuðningsmaður Chelsea. Það er uppáhaldsliðið mitt því ég bjó í svo mörg ár í London,” sagði Sveinn.

Eiður á tvo aðra yngri syni, þá Andra Lucas og Daníel Tristan, og ef tekið er mið af þeim knattspyrnugenum sem eru fyrir hendi í fjölskyldunni skyldi enginn veðja gegn því að Guðjohnsen ættarnafnið verði áfram órjúfanlegur hluti íslenskrar knattspyrnu.
Athugasemdir
banner
banner
banner