Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
banner
   þri 24. júlí 2012 17:00
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 1. deild: Erum betri en taflan sýnir
Leikmaður 12. umferðar: Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Hallgrímur fagnar öðru marka sinna.
Hallgrímur fagnar öðru marka sinna.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hallgrímur Mar Steingrímsson, leikmaður KA, er leikmaður 12. umferðar 1. deildar. KA vann 5-1 sigur á ÍR þar sem Hallgrímur var í miklu stuði, var síógnandi og skoraði tvö af mörkunum.

Hann segist ekki viss um hvort hægt sé að bóka leikinn sem þann besta hjá KA í sumar.

„Leikurinn var mjög góður af okkar hálfu en við vorum einnig góðir gegn Haukum og áttum að klára þann leik með fleiri mörkum. En auðvitað skoruðum við 5 mörk í þessum leik þannig að það má kannski segja að þetta hafi þannig séð verið okkar besti leikur," segir Hallgrímur sem bjóst við meiri mótspyrnu frá ÍR.

„Já, þannig séð. Við töpuðum fyrir þeim í fyrri umferðinni og þeir eru með ágætis „posta" í liðinu hjá sér. En eins og leikurinn spilaðist þá var þetta aðeins auðveldari sigur en ég bjóst við og hefðum við átt að vera að vinna með fleiri mörkum í hálfleik en náðum að klára þetta almennilega í seinni."

Liðið stigið upp eftir leikinn gegn Þór
Hallgrímur hefur verið gríðarlega öflugur fyrir KA í siðustu leikjum.

„Liðið allt hefur verið að stíga upp eftir leikinn gegn Þór og við höfum spilað mjög vel eftir þann leik að undanskildum arfaslökum leik á móti Þrótti í Reykjavík. Frammistaða mín hefur bara verið betri ásamt frammistöðu liðsins. Þó eru leikir þarna sem við höfum átt að klára en frammistaðan hefur þó verið góð," segir Hallgrímur.

Hann segir að KA sé með betra lið en taflan sýnir.

„Það hjálpar okkur svolítið hve jöfn deildin er. Við erum enn í bullandi séns á því að vera í þessari toppbaráttu. Það eru leikir sem við höfum misst niður í jafntefli og þau hafa öll komið á heimavelli og við lítum á það sem áttum töpuð stig. Við værum vel settir ef við værum með þessi stig og stefnum á að þau komi í seinni umferðinni."

Of mörg stig töpuð á heimavelli
Hann telur að liðið eigi raunhæfa möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna.

„Já klárlega. Við erum með gott lið og ef við spilum eins og við höfum verið að spila undanfarið þá erum við í góðum málum. Eins og ég segi þá erum við búnir að tapa of mörgum stigum á heimavelli og það ætlum við að laga í seinni umferðinni. Við vorum lengi í gang í fyrra og það virðist vera svipað þetta árið. Seinni umferðin hjá okkur í fyrra var mjög góð og vonumst við til að það verði einnig þannig í ár. Þá ættum við að vera vel settir í lok leiktíðar."

Hvað hefur komið honum mest á óvart við 1. deildina í sumar? „Það hefur komið mér mikið á óvart hversu ótrúlega jöfn deildin er. Maður vissi fyrir mót að það væri ekkert lið að fara að stinga af eins og ÍA og Selfoss gerðu í fyrra en svona pakka bjóst maður kannski ekki við. En ég held að línur fari að skýrast betur eftir 3-4 umferðir," segir Hallgrímur.

Sandor getur unnið fullt af stigum
Markvörðurinn Sandor Matus spilaði sinn 200. leik fyrir KA gegn ÍR sem er magnað afrek. Hallgrímur segir frábært að hafa svona reyndan og traustan markvörð.

„Það er auðvitað frábært að hafa Sandor með sér í liði. Frábær markmaður sem getur unnið fullt af stigum fyrir okkur og hann hefur gert það í gegnum árin. Svo erum við með einn efnilegasta markmann landsins hjá okkur líka, Fannar Hafsteinsson, og ég held að hann eigi Sandor einmitt mikið að þakka," segir Hallgrímur Mar.

Sjá einnig:
Leikmaður 9. umferðar - Dominic Furness (Tindastóll)
Leikmaður 8. umferðar - Halldór Smári Sigurðarson (Víkingur R.)
Leikmaður 7. umferðar - Darren Lough (KA)
Leikmaður 6. umferðar - Björn Pálsson (Víkingur Ó.)
Leikmaður 5. umferðar - Illugi Þór Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 4. umferðar - Nigel Quashie (ÍR)
Leikmaður 3. umferðar - Ásgeir Aron Ásgeirsson (Fjölni)
Leikmaður 2. umferðar - Robin Strömberg (Þór)
Leikmaður 1. umferðar - Birkir Pálsson (Höttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner