Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, segir að félagið haldi því ennþá opnu að semja við framherjann Alvaro Montejo Calleja. Alvaro, sem lék með Huginn í fyrra og hitteðfyrra, var með Fylki í æfingaferð á Englandi á dögunum en varð fyrir því óláni að fótbrotna í leik gegn varaliði Reading.
„Þetta var ömurlega leiðinlegt og hann fer í aðgerð. Hugsanlega reynum við að gera eitthvað fyrir hann, hvort sem hann komi í sumar eða næsta sumar. Hann sýndi ágætis hluti sem gætu nýst okkur," sagði Hermann við Fótbolta.net í dag.
Fylkismenn eru ennþá í leit að markverði til að berjast um stöðuna við Ólaf Íshólm Ólafsson.
„Áttu hanska eða? Ef þú þekkir einhvern sem á hanska, þá vantar okkur einn markmann."
Fylkismenn hefja leik í Pepsi-deildinni gegn Stjörnunni í Garðabæ á mánudagskvöld.
„Þetta eru allt erfiðir leikir. Sérstaklega á móti þessum stærri klúbbum. Þeir eru búnir að styrkja sig mikið. Þetta verður hörkuleikur," sagði Hermann sem er í leikbanni og verður því í stúkunni á mánudag. „Ætli maður öskri ekki eitthvað þegar það á við," sagði Hermann léttur.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir