„Þetta var fínn leikur hjá okkur. Ég er nokkuð sáttur," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir 2-1 sigur á Víkingi Ólafsvík í Lengjubikarnum í kvöld.
Valsmenn eru búnir að vinna alla þrjá leiki sína í riðlinum og eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum sem fara fram 9. apríl. Undanúrslitin í Lengjubikar eru síðan 13. apríl en Valsmenn verða í æfingaferð í Bandaríkjunum 10-20. apríl.
„Einhver hluti af okkur verður erlendis, ég veit ekki hvernig við göngum frá þessu. Ég er ekkert farinn að pæla í því," segir Ólafur en hann útilokar að draga lið Vals úr keppni ef liðið fer áfram í undanúrslit.
„Við drögum liðið ekki úr keppni. Það kemur ekki til greina. Við vinnum saman í því að finna leikdag."
Ólafur reiknar ekki með frekari liðsstyrk áður en keppni í Pepsi-deildinni hefst þann 30. apríl. „Við erum ekki að leita þessa stundina. Við erum komnir með alla okkar leikmenn held ég," sagði Óli.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir