mán 27. ágúst 2018 20:57
Ívan Guðjón Baldursson
England: Tottenham skellti Man Utd á Trafford
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester United 0 - 3 Tottenham
0-1 Harry Kane ('50)
0-2 Lucas Moura ('52)
0-3 Lucas Moura ('84)

Tottenham var rétt í þessu að vinna sögulegan sigur gegn Manchester United á Old Trafford.

Fyrri hálfleikurinn var áhugaverður þar sem heimamenn fengu nokkur góð færi en nýttu ekki. Romelu Lukaku klúðraði besta færi Rauðu djöflanna einn á móti marki en gestirnir hefðu átt að fá vítaspyrnu þegar Phil Jones virtist brjóta á Lucas Moura.

Staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsklefa og kom slæm nýting í bakið á heimamönnum eftir leikhléð.

Harry Kane byrjaði á því að skora með skalla eftir hornspyrnu frá Kieran Trippier. Tveimur mínútum síðar var Lucas búinn að tvöfalda forystuna eftir skelfilegan varnarleik heimamanna.

Sóknir Man Utd voru sjaldan hættulegar og virkuðu gestirnir frá London öruggir með sig. Lucas innsiglaði sigurinn eftir skyndisókn á 84. mínútu eftir að hafa tekið Chris Smalling í bakaríið.

Meira var ekki skorað og sögulegur sigur Tottenham staðreynd. Man Utd situr eftir með þrjú stig eftir þrjár umferðir og eru stuðningsmenn félagsins brjálaðir og vilja margir hverjir sjá Jose Mourinho fjúka úr stjórastöðunni.

Tottenham hafði ekki skorað mark á Old Trafford síðan 1. janúar 2014.
Athugasemdir
banner
banner
banner