Landsliðshópur Íslenska karlalandsliðsins var kynntur á fréttamannafundi í Laugardalnum í dag. Guðni Bergsson formaður KSÍ er spenntur fyrir komandi verkefni hjá landsliðinu.
„Þetta eru auðvitað tveir erfiðir leikir og mikilvægir fyrir okkur, að mæta heimsmeisturum Frakka í Frakklandi er auðvitað mikil áskorun en ég hlakka til. Þetta er spennandi verkefni og svo er gríðarlega mikilvægur leikur gegn Sviss, þetta leggst vel í mig."
Staða kvennalandsliðsþjálfara er enn laus og Guðni segir að það komi ákvörðun um hver tekur við á næstunni en segir að ekki eitt nafn sé klárt ennþá.
„Við erum búnir að ræða við nokkra kandidata, við höfum verið að vinna eftir lista sem við settum saman. Það hefur gengið vel og ég á von á því að ákvörðun komi í það fljótlega. Ég vil ekki gefa upp neitt ákveðið nafn á þessari stundu en það kemur niðurstaða í þetta fljótlega."
Guðni hyggst ætla að gera nýja stöðu hjá knattspyrnusambandinu sem hefur mikið verið talað um, yfirmaður knattspyrnumála. Guðni segir að sú staða verði auglýst og við getum átt von á því að það klárist á þessu ári."
„Við erum að fara í gegnum ákveðnar skipulagsbreytingar hérna sem verða kynntar mjög bráðlega og þá í kjölfarið verður auglýst sú staða laus. Við munum þá fara yfir umsóknir og ákveða hver fær þá stöðu. Þú mátt eiga von á því að það klárist á þessu ári."
Athugasemdir