banner
   mið 13. mars 2019 16:30
Fótbolti.net
Stebbi Gísla: Verður vonandi raunhæft eftir eitt ár að stefna upp
Stefán Gíslason er þjálfari Leiknis.
Stefán Gíslason er þjálfari Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknir hafnaði í sjöunda sæti Inkasso-deildarinnar í fyrra.
Leiknir hafnaði í sjöunda sæti Inkasso-deildarinnar í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Stuðningsmenn Leiknis í Inkasso-deildinni eru byrjaðir með hlaðvarpsþætti um Breiðholtsfélagið en fyrsti þáttur kom inn í gær.

Þar er viðtal við Stefán Gíslason sem tók við Leiknismönnum í vetur og hann er meðal annars spurður út í hópinn fyrir sumarið.

„Kjarninn í hópnum er sterkur og mér lýst vel á hann fyrir sumarið. Með réttum styrkingum erum við orðið nokkuð spennandi lið til að gefa öllum liðum leik. Það hefur mikið púður verið sett í það að reyna að finna menn til að styrkja hópinn," segir Stefán en Leiknismenn ætla að bæta við mönnum.

„Það koma tveir leikmenn úr skóla í Bandaríkjunum, Daði (Bærings) kemur og svo höfum við gert heiðursmannasamkomulag við annan leikmann sem er úti í skóla. Þegar ég tek við er mér sagt að við séum með fjárráð til að sækja tvo leikmenn sem geta styrkt fyrstu ellefu. Ég sé fyrir mér að við séum að fá 3-4, það er allavega planið."

Hvert er markmið sumarsins?

„Ég er í þessu til að vinna leiki og safna punktum. Markmiðið hjá mér og liðinu er að vera í efri hluta deildarinnar, geta kitlað efri hlutann," segir Stefán en hann vill spila jákvæðan leikstíl.

„Við viljum spila fótbolta, haldið í boltann og spilað honum. Við erum að vinna eftir því. Það er stutt á milli í þessu og mikilvægt að við lærum hvenær við spilum þannig. Við erum með rosalega spennandi unga leikmenn fram á við, þá er ég ekki endilega bara að tala um framherjana. Við ætlum að vera sóknarsinnaðir í okkar leik og þora að spila þannig. Um leið viljum við vera traustir varnarlega."

Hann var svo spurður út í markmið til framtíðar og segir Stefán að það liggi ljóst fyrir.

„Markmiðið hjá mér og félaginu er að komast upp í efstu deild. Ef það væri ekki markmiðið þá veit ég ekki hvað við værum að gera hérna. Stuðningsmenn vilja sjá liðið aftur í Pepsi-deildinni. Það verður að horfa á raunhæft á þetta og það er ekki hægt að segja að það sé raunhæft að setja það markmið að fara upp í sumar. Vonandi verður það hægt eftir eitt ár," segir Stefán en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner