þri 23. júní 2009 08:27
Magnús Már Einarsson
1.deild leikmaður umf: ,,Vill fá að vera villtur og tækla aðeins"
Brynjar Hlöðversson (Leikni R.) er leikmaður 7.umferðar í 1.deild karla
Brynjar í leiknum í fyrradag.
Brynjar í leiknum í fyrradag.
Mynd: Matthías Ægisson
Brynjar sýnir tattúið sitt.
Brynjar sýnir tattúið sitt.
Mynd: Fótbolti.net - Viktor Bjarnason
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Matthías Ægisson
Brynjar Hlöðversson átti skínandi leik fyrir Leikni sem gerði sér lítið fyrir og skellti Selfossi 4-0 í sjöundu umferð 1. deildar karla. Brynjar lék sem djúpur miðjumaður og barðist gríðarlega vel allan leikinn. Brynjar er leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolta.net.

Brynjar Hlöðversson
Brynjar Hlöðversson er tvítugur varnarsinnaður leikmaður sem getur bæði leikið í vörninni og sem djúpur miðjumaður. Brynjar er uppalinn hjá Leikni og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið á Íslandsmóti sumarið 2005. Árið 2007 var hann lánaður í KB, varalið Leiknis, og lék með því eitt tímabil.
„Já þetta kemur mér aðeins á óvart því ég hafði ekkert hugsað út í þetta. Það kom mér ekki á óvart að ég var valinn maður leiksins á Leiknissíðunni en bjóst ekki alveg við þessu. Ég naut mín virkilega vel í þessum leik eins og fleiri leikmenn okkar. En þetta er frábært,“ sagði Brynjar þegar honum var tilkynnt um valið.

Fyrir leikinn var Leiknir í botnsæti deildarinnar en liðið hrökk í gírinn og vann öruggan sigur á toppliðinu. „Ég er alveg í skýjunum með þennan leik. Loksins small þetta saman og fyrsti sigurinn kom í hús. Lukkudísirnar voru loksins með okkur. Við vorum eiginlega orðnir fullsaddir af þessu basli í byrjun móts og allir lögðust á eitt að snúa dæminu við. Það hefur oft vantað herslumuninn hjá okkur í leikjum og við ekki náð að klára leiki þar sem við höfum verið mun betri. Það var hungrið sem skilaði þessum sigri,“ sagði Brynjar.

„Fyrir tímabilið taldi ég það gríðarlega mikilvægt að byrja mótið vel. Það fór þveröfugt og byrjunin hrikaleg. Mér fannst það mjög erfitt því persónulega tel ég að liðið geti klárlega barist ofar. Það hefur verið sagt um okkur að við séum brokkgengir, getum unnið alla og tapað fyrir öllum. Það virðist vera margt til í því og það er eitthvað sem við verðum að laga. Við verðum að fá meiri stöðugleika. Við eigum mikið inni og fólk getur búist við meiru frá Leikni.“

Brynjar er fjölhæfur leikmaður sem hefur spilað sem hægri bakvörður og miðvörður í upphafi tímabils en hann lék á miðjunni í þessum leik.

„Það er ekkert nema gott að geta spilað margar stöður. Ég spila bara þá stöðu sem Steini vill að ég spili. Markið er eina staðan sem ég treysti mér ekki til að spila. Ég var færður fram í einum leik á undirbúningstímabilinu og setti eitt mark eftirminnilega. Mér finnst ég samt nýtast best sem varnarsinnaður miðjumaður þar sem ég fæ að vera smá villtur og tækla aðeins. Annars nýt ég mín líka vel í vörninni,“ sagði Brynjar.

Leiknisliðið er byggt upp á uppöldum leikmönnum og þar hefur fyrirliðinn Halldór Kristinn Halldórsson líklega verið besti leikmaður liðsins í upphafi móts.

„Dóri hefur verið eins og klettur. Hann hefur staðið fyrir sínu í öllum leikjum og hef fulla trú á því að hann muni halda því áfram. Hann er að bera mikla ábyrgð og myndi deyja fyrir klúbbinn. Maður sem hægt er að læra mikið af,“ sagði Brynjar um liðsfélaga sinn og fyrirliða.

Sigursteinn Gíslason tók við Leiknisliðinu eftir síðasta tímabil og rétt fyrir mót kom Gunnar Einarsson sem spilandi aðstoðarþjálfari hans. „Þetta eru snillingar. Þeir eru algjörir spaðar og eru náttúrulega sannir sigurvegarar. Ég fíla þá alveg í botn. Ég hef náð góðum tengslum við þá báða og vona innilega að þeir verði hérna í langan tíma og komi liðinu á næsta stig."

Aðstaðan hjá Leikni hefur tekið stakkaskiptum en í vetur var nýtt félagsheimili vígt. „Þetta er náttúrulega draumur sem varð að veruleika. Við erum núna með fullkomið hús, gervigras, æfingagras og frábæran aðalvöll með flottri stúku. Maður er farinn að vera meira þarna heldur en heima hjá sér.“

Brynjar er með húðflúrað yfirvaraskegg á puttanum. Hvernig kom það til? „Fyrir tæpum tveimur árum sá ég einhverja mynd af gaur sem var búinn að tússa yfirvaraskegg á puttann á sér. Ég talaði um við Óla Hrannar félaga minn að það væri fyndið að fá sér svona tattú. Svo vorum við að rúnta eitthvað einn daginn og keyrðum framhjá tattú-stofu."

,,Þá benti Óli á tattú-stofuna og sagðist tilbúinn að splæsa á mig þessu tattúi. Ég tók mér þrjár sekúndur til að hugsa málið og ákvað svo að kýla á þetta og fékk mér yfirvaraskegg á puttann. Einhver spanjóli með gulltennur var að hlusta á Cypress Hill meðan hann gerði þetta meistaraverk á tíu mínútum,“
sagði Brynjar Hlöðversson að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 6.umferðar - Einar Ottó Antonsson (Selfoss)
Leikmaður 5.umferðar - Sævar Þór Gíslason (Selfoss)
Leikmaður 4.umferðar - Milos Glogovac (Víkingur R.)
Leikmaður 3.umferðar - Jóhann Benediktsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 2.umferðar - Andri Fannar Stefánsson (KA)
Leikmaður 1.umferðar - Ottó Hólm Reynisson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner