,,Ég tók ekki einu sinni eftir þessu og enginn á bekknum heldur. Ég held að enginn á vellinum hafi áttað sig á þessu," sagði Freyr Alexandersson þjálfari Vals eftir 4-0 sigur á Breiðablik í Meistarakeppni KSÍ í kvöld en fyrsta mark Vals var skorað eftir að Blikar spyrntu útaf til að láta huga að meiðslum Dagmar Ýr Arnarsdóttur sem sleit líklega krossband.
,,Ég verð að horfa á þetta á video á eftir til að átta mig á hvað gerðist. Ef þetta var svona þá er það bara leiðinlegt. Samt sem áður voru þær ekki með þetta á hreinu í Breiðablik og náðu ekki að verjast þessu hjá okkur. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta bara lélegur varnarleikur og vel klárað hjá Kristínu," bætti Freyr við en Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði markið.
Aðspurður hvort hann hefði gefið skipanir inn á völlinn ef hann hefði vitað af þessu sagði hann: ,,Ég hefði sennilega gert það, kannski ekki á Íslandsmóti en í dag hefði ég sennilega gert það."























