,,Það má með sanni segja að þetta hafi verið mjög illa spilaður leikur af báðum liðum," sagði Jón Páll Pálmason þjálfari Hattar sem vann ÍH í 2. deildinni í dag 0-2 og fór þar með í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga, 12 stig eftir 4 umferðir.
,,Það er þannig í bransanum að þú þarft að klára lélega leiki og góð lið vinna oft lélega leiki á baráttu. Þetta var ekki hægt, þetta var varla boðlegt."
,,Það eru fjórir leikir búnir af mótinu. Ég reiknaði ekkert með að vera með 12 stig eftir þá enda var ég ekkert búinn að pæla neitt í því. Verkefni þessarar viku var bara ÍH og við byrjum á morgun að undirbúa okkur undir hvöt."
Þegar leikmenn Hattar fögnuðu fyrra marki sínu í kvöld dreifði Jón Páll bönönum á varamenn sína. Hann var spurður hvort það væri komið í stað nammis sem sumir þjálfarar dreifa?
,,Þetta er ekki alveg rétt. Það er bara þannig að Flugfélag Íslands var með veika starfsmenn í morgun svo flugið okkar seinkaði um 100 mínútur og KSÍ var bara tilbúið að seinka leiknum um 30 mínútur. Við ætluðum að fara í te og rist fyrir leik en það var ekki hægt svo mamma kom með 12 kíló af bönunum og við spóluðum þessu í okkur fyrir leik. Mamma er best."