mið 01. febrúar 2023 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjög vongóður um það að Russo fari ekki frítt næsta sumar
Alessia Russo.
Alessia Russo.
Mynd: Getty Images
Marc Skinner, stjóri kvennaliðs Manchester United, er mjög vongóður um það að enska landsliðskonan Alessia Russo muni skrifa undir nýjan samning við félagið.

Russo, sem er 23 ára gömul, hefur verið mikið í fréttum síðustu daga út tveimur heimsmetstilboðum frá Arsenal í hana. Arsenal reyndi að gera hana að dýrasta leikmanni í sögu kvennaboltans, en United hafnaði öllum tilboðum.

Sagt er að Arsenal hafi boðið tæplega 500 þúsund pund í hana, en heimsmetið núna eru þau 400 þúsund pund sem Barcelona borgaði fyrir Keiru Walsh síðasta sumar.

Samningur Russo rennur út næsta sumar, en hún hafnaði samningstilboði frá Man Utd í júní síðastliðnum. Þó er Skinner vongóður um að halda henni.

„Ég held að hún elski félagið og við elskum hana. Ég er mjög vongóður og við ætlum að reyna allt sem við getum," sagði Skinner við fréttamenn.

United er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Skinner segir það risastórt fyrir titildrauma félagsins að halda Russo.
Athugasemdir
banner
banner