mið 01. mars 2023 21:42
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal hefndi fyrir tapið á Goodison Park
Gabriel Martinelli skoraði tvö fyrir Arsenal
Gabriel Martinelli skoraði tvö fyrir Arsenal
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal 4 - 0 Everton
1-0 Bukayo Saka ('40 )
2-0 Gabriel Martinelli ('45 )
3-0 Martin Odegaard ('71 )
4-0 Gabriel Martinelli ('80 )

Topplið Arsenal er nú með fimm stiga forystu í efsta sæti deildarinnar eftir 4-0 sigur á Everton á Emirates-leikvanginum í kvöld en brasilíski kantmaðurinn Gabriel Martinelli skoraði tvívegis fyrir heimamenn.

Síðast er liðin mættust hafði Everton betur, 1-0, á Goodison Park, en það var allt annað að sjá Arsenal-liðið í kvöld.

Það þurfti þolinmæðisvinnu en mörkin skiluðu sér á endanum. Bukayo Saka kom Arsenal yfir á 40. mínútu eftir góða sendingu frá Oleksandr Zinchenko. Skotið hjá Saka var öflugt og efst í þaknetið en aðeins fimm mínútum síðar bætti Martinelli við öðru eftir að Saka rændi boltanum af Idrissa Gueye, áður en hann lagði boltann fyrir Martinelli sem skoraði.

Martin Ödegaard gerði þriðja mark Arsenal á 71. mínútu eftir góða sókn. Granit Xhaka fann Leandro Trossard sem kom boltanum inn á Ödegaard og þaðan í netið. Þegar tíu mínútur voru eftir gulltryggði Martinelli sigurinn.

Zinchenko fann Eddie Nketiah sem kom honum fyrir lappirnar á Martinelli sem gerði annað mark sitt í leiknum.

Lokatölur 4-0 fyrir Arsenal sem er með 60 stig í efsta sæti deildarinnar, fimm stigum meira en Manchester City þegar þrettán leikir eru eftir. Everton er á meðan í 18. sæti með 21 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner