Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 01. mars 2023 21:29
Brynjar Ingi Erluson
Enski bikarinn: D-deildarlið Grimsby sló Southampton úr leik - Burnley í 8-liða úrslit
Grimsby er komið í 8-liða úrslit enska bikarsins
Grimsby er komið í 8-liða úrslit enska bikarsins
Mynd: Getty Images
Michee Efete, sem er hér lengst til hægri, fagnar með liðsfélögum sínum
Michee Efete, sem er hér lengst til hægri, fagnar með liðsfélögum sínum
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg er kominn í 8-liða úrslit enska bikarsins
Jóhann Berg er kominn í 8-liða úrslit enska bikarsins
Mynd: Getty Images
Southampton 1 - 2 Grimsby
0-1 Gavan Holohan ('45 , víti)
0-2 Gavan Holohan ('50 , víti)
1-2 Duje Caleta-Car ('65 )

D-deildarlið Grimsby Town tryggði í kvöld sæti sitt í 8-liða úrslitum enska bikarsins eftir óvæntan 2-1 sigur á Southampton á St. Mary's leikvanginum.

Grimsby hefur ekki riðið feitum hesti í D-deildinni á tímabilinu og situr í 16. sætinu með 38 stig.

Liðið hefur hins vegar náð ótrúlegum árangri í bikarnum og er nú á leið í 8-liða úrslit í fyrsta sinn síðan 1939 en þá fór liðið alla leið í undanúrslit keppninnar.

Southampton skapaði sér hættulegri færi í fyrri hálfleiknum en undir lok hálfleiksins var dæmd vítaspyrna eftir að Lyanco handlék knöttinn í teignum. Gavan Holohan steig á punktinn og skoraði.

Alls voru 4000 stuðningsmenn Grimsby á leiknum og það ætlaði allt um koll að keyra þegar nokkrar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Duje Caleta-Car var í baráttunni við Danilo Orsi sem endaði með því að þessi sóknarmaður Grimsby féll í grasið. Eftir skoðun VAR benti dómarinn á punktinn og tvöfaldaði Holohan forystuna.

Caleta-Car bætti upp fyrir mistök sín fimmtán mínútum síðar eftir hornspyrnu James Ward-Prowse.

Theo Walcott kom boltanum í netið á 80. mínútu leiksins en var dæmdur rangstæður. Southampton reyndi og reyndi að ná inn jöfnunarmarki í lokin en vörn Grimsby hélt vel.

Michee Efete, sem spilaði með Breiðabliki sumarið 2017, var í vörn Grimsby, sem gerði frábærlega í þessum leik. Hann spilaði 9 leiki á tíma sínum hjá Blikum.

Grimsby Town er komið í 8-liða úrslit í fyrsta sinn síðan 1939!

Burnley 1 - 0 Fleetwood Town
1-0 Connor Roberts ('90 )

Burnley er einnig komið í 8-liða úrslit eftir 1-0 sigur á Fleetwood Town á Turf Moor.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inná sem varamaður á 63. mínútu.

Connor Roberts gerði eina mark Burnley undir lok leiks eftir sendingu frá Vitinho. Burnley mun því fara með Grimsby í 8-liða úrslit enska bikarsins.


Athugasemdir
banner
banner