Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 01. mars 2023 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Er orðinn Brighton og Mitoma aðdáandi þökk sé Arnari Gunnlaugs
Danijel Dejan Djuric.
Danijel Dejan Djuric.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bræðurnir Danijel Dejan og Nikola Dejan Djuric voru gestir í hlaðvarpinu Enski boltinn fyrr í þessari viku. Þar fóru þeir yfir ýmislegt tengdu enska boltanum.

Danijel, sem er leikmaður Víkings, er stuðningsmaður Chelsea en hann sagðist núna líka vera orðinn mikill aðdáandi Brighton fyrir tilstilli Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkinga.

„Mér finnst ógeðslega gaman að horfa á Brighton núna. Það er skrítið," sagði Danijel.

„Fyrir leiki er hann stundum með Brighton glærukynningar, hvað þeir gera gott og svona. Hann elskar Brighton. Hann kveikti áhuga minn á því hvernig þeir spila fótbolta en ég hafði aldrei pælt mjög mikið í því. Mér finnst geggjað að horfa á Brighton spila fótbolta."

Brighton spilar líklega einhvern skemmtilegasta fótboltann í ensku úrvalsdeildinni; fyrst gerðu þeir það undir stjórn Graham Potter og núna undir stjórn Ítalans Roberto De Zerbi.

Skemmtilegasti leikmaður Brighton um þessar mundir er mögulega japanski kantmaðurinn Kaoru Mitoma. Danijel spilar sömu stöðu og Mitoma og er það leikmaður sem hann horfir mikið til.

„Mitoma er ruglaður leikmaður. Hvernig hann fer einn á einn, hann kemst alltaf fram hjá andstæðingnum. Hann reynir að koma varnarmanninum úr jafnvægi. Hann skrifaði ritgerð um það hvernig á að taka leikmenn á einn og einn. Ég las smá úr því, punkta úr þeirri ritgerð. Það er geggjaður leikmaður og ég er orðinn smá Brighton maður."

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.


Enski boltinn - Engin vitleysa töluð hjá Djuric bræðrum
Athugasemdir
banner