lau 01. maí 2021 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 1. sæti
Valur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísa Viðars
Elísa Viðars
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mary Alice
Mary Alice
Mynd: Valur
Sandra Sigurðar
Sandra Sigurðar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna Rakel Pétursdóttir
Anna Rakel Pétursdóttir
Mynd: ARP
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 4. maí næstkomandi. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. Valur
2. Breiðablik
3. Fylkir
4. Selfoss
5. Þór/KA
6. Þróttur R.
7. Stjarnan
8. ÍBV
9. Keflavík
10. Tindastóll

1. Valur (Íslandsmeistari)

Lokastaða í fyrra: Valur endaði í 2. sæti deildarinnar í fyrra eftir að hafa verið spáð 2. sætinu. Liðið var tveimur stigum á eftir Breiðablik en lék einum leik meira. Liðið tapaði báðum leikjunum gegn Breiðabliki og gerði eitt jafntefli gegn Fylki. Hina leikina vann liðið.

Þjálfarinn: Pétur Pétursson er á sínu fjórða ári sem þjálfari Vals. Pétur er þaulreyndur þjálfari sem hefur unnið Íslandsmeistaratitla bæði með karla og kvennalið. Honum til aðstoðar er Eiður Benedikt Eiríksson.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði Vals.

„Valur var lang næstbesta liðið í fyrra. Frábært lið og góðir þjálfarar. Breiðablik voru bara einu númeri of sterkar. Það er eitthvað svo ótrúlega heillandi við samsetningu liðsins í ár. Eiginlega alveg banvæn blanda af reynsluboltum sem hafa unnið marga titla og svo ungar og efnilegar stelpur sem eru með mikla reynslu miðað við aldur. Bæði með félags-og landsliðum. Liðið virkar heilsteypt og breiddin er orðin ansi álitleg á hópnum."

„Valsstelpur hafa spilað þó nokkuð marga leiki miðað við allt og allt í vetur og lítið hefur verið um jafna leiki. A.m.k. mótsleiki. Það er hellingur af mörkum í liðinu og ansi góð breidd í flestum stöðum á vellinum. Það mætti segja manni að samkeppni um stöður skili sér vel á æfingarnar og ákefðin sé ansi mikil þar."


Eru sterkasta lið landsins á pappírunum

„Þær hafa botnlausa reynslu í Söndru, Dóru Maríu, Mist og Elísu og svo hafa leikmenn eins og Elín Metta og Sísí, ásamt nokkrum fleirum, spilað ótrúlegt magn leikja miðað við aldur. Allt eru þetta auðvitað reyndar landsliðsstelpur og sigurviljann vantar ekki. Það er ljóst að fyrirliðinn Elísa tekur ekki í mál að liðið ætli að horfa á eftir bikarnum yfir í Kópavoginn aftur og flesta grunar að hópurinn fylgi henni í því máli."

„Ekki verður hjá því komist að minnast á að líkt og Breiðablik þá hafa sterkir leikmenn haldið út í atvinnumennsku frá í fyrra og það er alltaf verkefni að fylla í slík skörð. Það er samt sem áður mat spámanna þetta árið að það muni ganga betur hjá Val að halda vélinni saman og vel smurðri út tímabiið."

„Sterkur og reyndur leikmannahópur og metnaðarfullt þjálfarateymi á eftir að sigla Íslandsmeistaratitlinum að Hlíðarenda tímabilið 2021 samkvæmt spánni. Það er mikið lagt í liðið og samkeppni um stöður er mikil. Sterkir leikmenn eins og Anna Rakel og Sísí hafa bæst við góðan hóp og það er kraftur í kringum Val þetta árið eins og oft áður. Þær eru sterkasta lið landsins á umtöluðum pappírum fyrir tímabilið."


Lykilmenn: Elín Metta Jessen, Elísa Viðarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir.

Gaman að fylgjast með: Anna Rakel Pétursdóttir kemur fersk úr atvinnumennskunni í Svíþjóð og Mary Alice Vignola sem gerði gott mót með Þrótti í fyrra.

Komnar:
Anna Rakel Pétursdóttir frá Uppsala
Hlíf Hauksdóttir frá KR
Jana Sól Valdimarsdóttir frá Stjörnunni
Mary Alice Vignola frá Þrótti R.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir frá Þrótti (Var á láni)
Sigríður Lára Garðarsdóttir frá FH
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen frá Breiðabliki

Farnar:
Diljá Ýr Zomers til Häcken
Guðný Árnadóttir til AC Milan
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í Orlando Pride
Hallbera Guðný Gísladóttir til AIK í Svíþjóð
Hlín Eiríksdóttir til Pitea í Svíþjóð
Karen Guðmundsdóttir í Gróttu á láni

Sjá einnig
Hin Hliðin - Ólöf Sigríður Kristinsdóttir
Hin hliðin - Sólveig Larsen
Athugasemdir
banner
banner
banner