Kolbeinn Þórðarson skoraði fyrra mark Gautaborgar í 2-0 sigri liðsins á nágrönnunum í GAIS. Það var mikil stemning á Gamla Ullevi, mikill rígur á milli liðanna og urðu tafir á leiknum eftir að stuðningsmenn Gautaborgar kveiktu á blysum. Markið hans Kolbeins má sjá með því að smella hér. Boltinn barst til hans í teignum og skoraði hann með góðu vinstri fótar skoti í nærhornið.
Hann fór yfir sína upplifun af gærdeginum.
Hann fór yfir sína upplifun af gærdeginum.
„Þetta var ótrúleg stemning, það hefur verið mikill spenningur fyrir þessum leik og uppselt í langan tíma. Stuðningsmenn mættir snemma og byrjaðir að syngja í upphitun og svo voru Tifo og sprengjur og einhver læti," segir Kolbeinn.
Tifo er þegar stuðningsmenn halda uppi spjöldum og búa til myndir í stúkunni.
Kolbeinn skoraði á 36. mínútu. Það var annað markið hans á tímabilinu.
„Markið kom á fullkomnum tímapunkti fyrir okkur, við vorum með yfirhöndina og náðum að skora eitt núll sem var rosalega mikilvægt. Þetta var fyrsti sigurinn okkar heima í langan tíma og að hann kom núna loksins í borgarslagnum var fullkomið bara."
„Rígurinn á milli liðanna er gríðarlega mikill, þetta er stærsti borgarslagurinn í Gautaborg og þeir hafa átt betra tímabil en við svo það var krafa fyrir okkur að kvitta fyrir tap í síðasta nágrannaslag."
„Þetta er mark sem ég mun ekki gleyma, gott mark í nágrannaslag, það gerist ekkert betra og fer klárlega á topplista hjá mér," segir Kolbeinn sem var maður leiksins í gær og fékk mikið hrós fyrir vinnusemi sína í leiknum. Eini mínusinn var sá að Kolbeinn fékk gult spjald og verður því í banni í næsta leik.
Hann hefur spilað 23 af 25 leikjum Gautaborgar á tímabilinu, alltaf sem byrjunarliðsmaður. Hann kom til Gautaborgar frá Lommel fyrir rúmu ári síðan og hefur náð að festa sig í fessi. Gautaborg er í 11. sæti sænsku deildarinnar þegar fimm mferðir eru eftir.
Sigurinn í gær var mjög mikilvægur því einungis þrjú stig eru niður í fallumspilssæti. Síðasti heimasigur á undan sigrinum í gær kom 1. júní.
Athugasemdir