Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var ánægður með frammistöðu liðsins þrátt fyrir tap gegn Val í úrslitum Lengjubikarsins í dag.
„Þetta var góð frammistaða. Við byrjuðum leikinn mjög vel og hefðum viljað skora þar. Förum með 0-0 í hálfleik en mér fannst við vera heldur sterkari aðilinn," sagði Hallgrímur Jónasson.
„Byrjum seinni hálfleikinn líka vel en náum ekki að skora, fáum svo víti og komumst 1-0 yfir. Valur er gott lið og í lokin erum við kannski aðeins of varnarlega sinnaðir og þeir jafna á 90. mínútu, það er alltaf svekkjandi."
„Ég get ekki skilið að við fáum ekki víti og fleiri en eitt. Dómarinn mat það ekki þannig, ég spjallaði aðeins við hann eftir leik og fékk útskýringu. Við skjótum í stöng og okkar maður er einn á auðum sjó og er að fara sparka honum inn en er tæklaður aftan frá. Ég held að enginn á vellinum hafi skilið af hverju það var ekki víti," sagði Hallgrímur.
Hallgrímur var gríðarlega ánægður að fá leik gegn jafn sterku liði og Valur er rétt fyrir mót og það á heimavelli.
„Við vorum rosa ánægð að fá Val norður, hörku leikur og hörku lið. Svekkjandi að missa tvo í meiðsli en frammistaðan góð, fullt af folki mætti og gott veður, við erum spenntir að byrja mótið," sagði Hallgrímur.
Jakob Snær Árnason og Kristijan Jajalo meiddust í leiknum en Hallgrímur býst við því að þeir verði frá næstu vikurnar.