Jón Stefán Jónsson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Tindastól, var kátur með sigur gegn Augnablik í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
Tindastóll var 0-1 yfir í leikhlé en Augnablik átti góðan seinni hálfleik og náði að jafna. Stólarnir náðu þó að pota inn sigurmarki og höfðu betur að lokum, 1-2.
„Ég var mjög stressaður, þetta var jafn leikur sem datt okkar megin í dag," sagði Jónsi.
Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Augnabliks, var ekki sáttur með dómaraákvörðun sem kom á lokakafla leiksins í stöðunni 1-1. Línuvörðurinn flaggaði brot og vildi Vilhjálmur fá vítaspyrnu en dómarinn ósammála.
Jónsi er sammála kollega sínum og viðurkenndi fúslega að þetta hafi líklegast átt að vera vítaspyrna. Það var engin önnur en Ásta Árnadóttir, fædd 1983, sem féll innan vítateigs. Hún lék fyrir Þór/KA, Val og Tyresö á ferlinum auk þess að eiga 36 A-landsleiki að baki.
„Ég sá þetta ekki vel en ég hefði ekki sagt orð ef hann hefði dæmt víti, miðað við mitt sjónarhorn. Ég var mjög feginn að hann dæmdi það ekki, við megum alveg vera heppin líka.
„Það segja allir að þetta hafi verið vítaspyrna og svo er Ásta ekki beinlínis þekkt fyrir að dýfa sér."
Athugasemdir