fim 03. september 2020 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ég var ekki einmana lengur, mér fannst ég hluti af heild, ég var kominn heim"
Stuðningsmaður Aston Villa - Jóhann Gunnar Einarsson
Jóhann Gunnar Einarsson.
Jóhann Gunnar Einarsson.
Mynd: Úr einkasafni
Grealish er í uppáhaldi.
Grealish er í uppáhaldi.
Mynd: Getty Images
Gylfi myndi smellpassa í lið Villa segir Jói.
Gylfi myndi smellpassa í lið Villa segir Jói.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Aston Villa er spáð 18. sæti deildarinnar.

Jóhann Gunnar Einarsson er fyrrum handboltamaður (Íslandsmeistari með Fram árið 2013) og einnig sérfræingur í Seinni Bylgjunni á Stöð 2 Sport. Jóhann er stuðningsmaður Aston Villa og svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Aston Villa af því að... Þegar ég var ungur, svona 5-6 ára var ég að horfa á sjónvarpið og það var verið að sýna enska boltann. Ég spurði pabba hvað liðið héti í þessum flottu fjólubláu búningum, liðið var Aston-Villa. Eftir það var það bara mitt lið. Skammaði pabba, sem er Man Utd. maður, lengi vel fyrir að þvinga því ekki á mig að halda með Man Utd. því þá hefðu uppvaxtarárin verið full af gleði og árangri.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var mikil vonbrigði, eyddum miklu í fullt af leikmönnum, sem gátu margir hverjir lítið sem ekkert. Vorum síðan eiginlega bara í fallbaráttu allt tímabilið. Lentum líka í mikið af meiðslum. 3 lykilleikmenn (Heaton,Wesley og McGinn) meiddust alvarlega. Ef þeir verða allir klárir fljótlega þá líst mér vel á tímabilið, vorum nefnilega að spila fínan bolta undir lokin.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ég á það eftir. Sá þá samt spila hér heima við FH, það er smá sárabót í því. Hef heyrt að Birmingham sé með eina hæstu glæpatíðnina og þar rigni hvað mest en þangað mun ég fara.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Jack Grealish

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Björn Engels, kostaði liðið mörg stig á síðasta tímabili

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Mbwana Samatta. Skoraði nánast ekkert eftir að hafa verið fenginn á miðju tímabili en hann mun raða þeim inn í vetur.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Gylfa Sigurðsson, yrði fullkominn í liðið.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Já og nei. Kom okkur upp..flott, spilaði ekki nógu flottan bolta og var of lengi að finna byrjunarliðið sitt...slæmt , fallbarátta á síðasta tímabili.. slæmt , bjargaði liðinu frá falli úr nánast ómögulegri stöðu...flott. Á alveg skilið eitt tímabil í viðbót að minnsta kosti en við viljum sjá liðið taka næsta skref.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Veit ekki hvort þetta sé merkilegt. En ég man alltaf eftir því þegar Villa kom hingað 2008 að spila við FH. Þá spurðist það út að stuðningmenn Villa ætluðu að hittast á Ölveri. Það var oft einmanalegt að vera stuðningsmaður Aston Villa, ekki margir í kringum mann. Ég hélt að það myndu vera svona 10-15 manns en þegar ég mætti var staðurinn fullur af stuðningsmönnum Villa á Íslandi, ég var ekki einmana lengur, mér fannst ég hluti af heild, ég var kominn heim....var þetta nokkuð of dramatískt.

Mun Villa fá inn leikmenn nú rétt fyrir mót eða helduru að hópurinn verði að mestu óbreyttur? Við munum fá 2-3, en það verða engin nöfn, líklega úr liðum í Championship.

Hversu lengi verður Grealish hjá félaginu? Vonandi verður hann eitt tímabil í viðbót, ef Man Utd. lætur hann í friði

Í hvaða sæti mun Aston Villa enda á tímabilinu? 12. sæti væri bara mjög gott
Athugasemdir
banner
banner
banner