Kluivert orðaður við Newcastle - Gerrard með tilboð frá Carlisle - Sesko og Zubimendi færast nær Arsenal
   þri 04. febrúar 2025 14:18
Elvar Geir Magnússon
Flakkarinn Felix kynntur hjá AC Milan (Staðfest)
Mynd: AC Milan
Felix í leik með portúgalska landsliðinu.
Felix í leik með portúgalska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Portúgalinn Joao Felix er kominn á lánssamningi frá Chelsea til AC Milan. Ekki er nein klásúla um framtíðarkaup en Milan borgar laun leikmannsins út tímabilið.

Þetta eru fjórðu félagaskipti Felix á aðeins þremur árum en hann hefur ekki náð að festa niður rótum. Hann byrjaði tímabilið 2022-23 hjá Atletico Madrid en var lánaður til Chelsea um mitt tímabil.

Hann tók svo tímabil hjá Barcelona og nú eftir að hafa verið sex mánuði hjá Chelsea er hann genginn í raðir AC Milan.

Felix kostaði Atletico Madrid 113 milljónir punda og Chelsea 45 milljónir punda síðasta sumar en þar gerði hann sjö ára samning. Hjá Lundúnafélaginu hefur hann ekki getað slegið Cole Palmer út úr stöðu sinni sem sóknarmiðjumaður.

Felix virðist aðallega hafa verið fenginn til Chelsea til að liðka fyrir sölu á Conor Gallagher til Atletico Madrid á 34 milljónir punda. Það bætti stöðu Chelsea gagnvart fjárhagsreglum um hagnað og sjálfbærni. Svo virðist sem kaup Chelsea á Felix hafi meira snúist um bókhald frekar en fótbolta.

Felix hefur aðeins byrjað þrjá úrvalsdeildarleiki á tímabilinu en hefur meira fengið að spila í bikarleikjum og Sambandsdeildinni.

Tíðindamikill janúargluggi hjá AC Milan
Það hefur verið mikið að gerast í leikmannamálum AC Milan í glugganum. Kyle Walker og Santiago Gimenez eru meðal þeirra sem komu til félagsins en Alvaro Morata og Ismael Bennacer voru lánaðir í burtu, svo einhverjir séu nefndir.

Transfermarkt telur að AC Milan hafi eytt 48,5 milljónum evra í janúarglugganum og fékk 11,8 milljónir inn með leikmannasölum.
Athugasemdir
banner
banner