
Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir lagði upp mark Wolfsburg í 2-1 tapi gegn Hoffenheim í þýsku deildinni í dag en þetta var fyrsta tap liðsins í deildinni á þessu tímabili.
Það voru liðnar 45 sekúndur er Sveindís lagði upp mark Wolfsburg en hún lagði boltann á Jule Brand sem keyrði í gegn og skoraði.
Wolfsburg skoraði sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiksins áður en Hoffenheim gerði sigurmarkið þegar tuttugu mínútur voru eftir. Sveindís fór af velli sjö mínútum síðar.
Þetta var fyrsta tap Wolfsburg í deildinni á tímabilinu en liðið er á toppnum með 36 stig, fimm stigum meira en Bayern München.
Jafnt í undanúrslitaleik
Inter og Juventus áttust við í fyrri undanúrslitaleik liðanna í ítalska bikarnum í dag.
Leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Mílanó en Sara Björk Gunnarsdóttir spilaði allan leikinn fyrir Juventus á meðan Anna Björk Kristjánsdóttir var allan tímann á varamannabekk Inter.
Liðin mætast í síðari leiknum eftir viku á heimavelli Juventus.
Athugasemdir