Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   mið 04. ágúst 2021 17:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vill vera sá besti í sinni stöðu á Íslandi - „Ógeðslega pirrandi að vera á bekknum"
Oliver segist vera meiri spilkall heldur en æfingakall.
Oliver segist vera meiri spilkall heldur en æfingakall.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilað stóru leikina undir stjórn Óskars.
Spilað stóru leikina undir stjórn Óskars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framundan er leikur gegn Aberdeen á morgun.
Framundan er leikur gegn Aberdeen á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Sigurjónsson er 26 ára gamall miðjumaður sem spilar með Breiðabliki. Hann spilar oftast sem djúpur miðjumaðu og kom aftur í Breiðablik eftir veru hjá Bodö/Glimt fyrir síðasta tímabil.

Oliver hefur ekki verið fastamaður í liði Breiðabliks í sumar en hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu leikjum.

Oliver ræddi við Fótbolta.net í dag. Umræðuefnið var leikurinn gegn Aberdeen á morgun, að spila á Laugardalsvelli og svo innkoma Olivers í byrjunarlið Breiðabliks í síðustu leikjum.

Annað úr viðtalinu:
Oliver um fyrirliða Aberdeen: Séð vídeó af honum skellihlæjandi eftir tæklingar
Flýgur í bæinn til að sjá Blika spila - Kópacabana trylltir á pöllunum

Ógeðslega pirrandi að vera á bekknum
Oliver byrjaði gegn Val þann 16. júní en næsti byrjunarliðsleikur var svo gegn Austria Vín þann 22. júlí. Voru það meiðsli eða eitthvað annað sem héldu þér utan liðsins?

„Á síðasta tímabili og á undirbúningstímabilinu var ég orðinn lykilmaður í liðinu og spilaði alla leikina. Svo dett ég úr liðinu, liðið var að spila vel og erfitt að segja eitthvað við því. Jú, það var örlítið högg sem ég var aðeins að díla við á tímabili," sagði Oliver.

„Það er auðvitað ógeðslega pirrandi að vera á bekknum og ekki að spila. Ég reyndi að vera góður liðsmaður og hjálpa liðsfélögunum af því það er það sem skiptir öllu máli."

Fékk traustið og hefur spilað vel
Oliver hefur verið í liðinu í síðustu leikjum og spilað vel.

„Ég hef fengið traustið síðustu leiki og að mínu mati hef ég nýtt tækifærið ágætlega. Þegar maður fær að spila marga leiki í röð fær maður miklu meira sjálfstraust. Ég vissi alveg að ég væri nógu góður þó ég hefði ekki spilað byrjunarliðsleik í mánuð en svo fær maður nokkra leiki í röð og maður fær meira sjálfstraust og mér finnst ég spila betur þegar ég fæ að spila. Ég er meiri spilkall heldur en æfingakall."

Hefur spilað stóru leikina undir stjórn Óskars
Þú komst inn í liðið fyrir útileikinn gegn Austria Vín, kom þér á óvart að þú fékkst kallið í þann leik?

„Óskar sagði mér bara að ég myndi spila þann leik. Ég veit ekki hvort það kom mér á óvart. Mér hefur fundist það síðan að Óskar tók við að hann lætur mig oftast spila stóra leiki, þegar við erum kannski ekki að sækja allan tímann. Vissulega var ég orðinn mjög pirraður að vera ekki að spila og þegar hann tjáði mér að ég myndi spila þá var ég auðvitað ánægður og ætlaði að nýta tækifærið."

„Að mínu mati gerði ég það og hef verið að gera það í undanförnum leikjum. Þetta kom kannski á óvart en samt ekki. Fyrir hvern einasta fund þá er maður með það í hausnum að maður sé að fara byrja, maður getur einhvern veginn ekki ímyndað sér neitt annað."


Vill vera besti djúpi miðjumaður á Íslandi
Það hefur verið einhver umræða um þig í sumar, að þú sért hægari og einhvern veginn í sama gírnum allan tímann. Hefuru orðið var við þessa umræðu?

„Nei, þetta er kannski klisjukennt en ég verð að viðurkenna að ég horfi ekki á neina þætti og hlusta ekki á hlaðvörpin. Ég varð ekki var við neina umræðu. Ég finn þetta á sjálfum mér, þegar maður fær ekki fullt 'sharpness', er ekki að spila alla leiki, þá getur maður litið út fyrir að vera aðeins hægari."

„Í síðustu leikjum hefur mér fundist ég ná að komast meira á mitt 'level 'og á inni á mörgum stöðum. Mín skoðun á fótbolta er sú að þú getur alltaf verið að læra, alltaf orðið betri, sama hvort þú ert 26 ára eða 33 ára."

„Það er eitthvað sem ég er ennþá að leita í, að verða stöðugri og betri en ég var þegar ég var yngri. Það er markmið mitt að vera besti djúpi miðjumaðurinn á Íslandi, það er held ég markmið flestra sem eru að spila í þeirri stöðu, að vera bestir í þeirri stöðu. Ég fer í hvern einasta leik og á hverja einustu æfingu til að vera bestur í minni stöðu, vinna mín einvígi og koma boltanum vel frá mér,"
sagði Oliver að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner