banner
   fös 04. september 2020 15:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Lagði gríðarlega áherslu á það í uppeldinu að ná mér í félagið"
Stuðningsmaður Crystal Palace - Orri Smárason
Á Selhurst Park.
Á Selhurst Park.
Mynd: Úr einkasafni
James McArthur með Andros Townsend.
James McArthur með Andros Townsend.
Mynd: Getty Images
Wilfried Zaha fagnar marki.
Wilfried Zaha fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Roy Hodgson.
Roy Hodgson.
Mynd: Getty Images
Steve Parish, stjórnarformaður Crystal Palace.
Steve Parish, stjórnarformaður Crystal Palace.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Crystal Palace er spáð 15. sæti deildarinnar.

Orri Smárson er mikill stuðningsmaður Palace og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Crystal Palace af því að... Pabbi minn, Smári Geirsson, heldur með liðinu og lagði gríðarlega áherslu á það í uppeldinu að ná mér í félagið. Nokkur hópur af frændum mínum heldur líka með þeim af því pabbi náði þeim á sitt band. Það hjálpaði honum verulega í uppeldinu að mér fannst nafnið flott, búningarnir flottir og það var hrikalega gaman að stýra Palace í Championship Manager '94.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var, eins og oftast hjá Palace, ansi kaflaskipt. Ströggl og óstöðugleiki framan af en svo tók við mjög góður kafli og menn voru jafnvel farnir að láta sig dreyma um Evrópusæti. Eftir Covid hlé var hins vegar gengið frekar dapurt og liðið endar fyrir neðan miðja deild, eins og vanalega. Tímabilið framundan ræðst talsvert af félagaskiptaglugganum. Palace tefldi að meðaltali fram elsta liðinu í deildinni og ýmis tölfræði endurspeglar það, m.a. hlaupatölur og fjöldi spretta leikmanna í leik. Það vantar hreinlega ferska og spræka fætur inn í liðið í bland við reynsluboltana. Ef það tekst að fríska uppá hópinn (og fylla skarð Zaha ef hann fer) þá er ég bara jákvæður á næsta tímabil.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ég hef þrisvar komið á Selhurst Park til að sjá liðið spila og séð einn útileik líka.

Uppáhalds leiknaðurinn í liðinu í dag? Zaha er náttúrulega yfirburðamaður í þessu liði. Ég var svo heppinn að vera á vellinum þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið og skoraði sitt fyrsta mark, og það var augljóst að hann var á aðeins öðru plani en aðrir á vellinum þó hann væri bara pjakkur þá.

Ég held samt einna mest upp á James McArthur, skoska vinnuhestinn. Líklega einhver bestu kaup sem Palace hefur gert. Gríðarlega vinnusamur, duglegur og áreiðanlegur leikmaður, leysir allar stöður á miðjunni og bakvörðinn ef þarf og er vanmetinn hvað varðar sendingagetu og boltameðferð. Algjör lykilmaður fyrir félagið.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Ef einhver býður góða summu í Benteke, sem er varla líklegt, myndi það ekki vera neitt sérstakt áfall að sjá á eftir honum.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Eberechi Eze var nýlega keyptur frá QPR. Virkar mjög spennandi, skapandi og flinkur. Gæti einmitt verið dæmi um þessar fersku og ungu fætur sem ég var að tala um að vantaði í liðið.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Kevin de Bruyne væri fínn.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Hann er auðvitað ungur og efnilegur strákur sem gæti alveg átt framtíð fyrir sér í boltanum... Ég er alla vega minna óánægður með hann en margir aðrir. Hodgson er vissulega íhaldssamur stjóri af gamla skólanum en það hefur líka ákveðinn stöðugleika í för með sér. Þegar maður hefur, eins og ég, fylgt liðinu upp og niður allar deildir og fleiri tímabil en ekki horft upp á baráttu um að fara upp um deild eða falla ekki, þá er smá miðjumoð í efstu deild bara hressandi tilbreyting. Það er það sem Hodgson býður upp á og ætti alls ekki að taka sem sjálfsögðum hlut.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Þegar ég var 17 ára fór ég með foreldrum mínum í sumarfrí til Englands. Pabbi átti kunningja hjá KSÍ sem hafði samband við félagið og reddaði okkur heimsókn á völlinn, þar sem það voru auðvitað engir leikir svona um hásumar. Við fengum einkatúr um allan völlinn og skoðuðum held ég hvert einasta herbergi á Selhurst frá búningsklefum til fundarherbergja yfirmanna. Fyrir tilviljun rákumst við líka á þáverandi knattspyrnustjóra liðsins, Dave Bassett, og fengum mynd af okkur með honum. Það var ógleymanlegt.

Crystal Palace er ekki stærsta félag í heimi en hefur núna verið ansi lengi í efstu deild. Hver er lykillinn að því? Núverandi eigandur hafa stýrt klúbbnum frá 2010 þegar þeir björguðu Palace frá barmi gjaldþrots. Þeir hafa allan tímann ítrekað að fjárhagslegri framtíð félagsins verði ekki stefnt í voða og því er reksturinn mjög skynsamur. Leikmenn eru oft keyptir frekar af því að þeir voru hagstæðasti kosturinn, mest fyrir peninginn, frekar en að stórir sénsar séu teknir með háum fjárhæðum. Þetta hefur skilað sér í hægum en öruggum vexti. Allir inniviðir hjá félaginu hafa batnað verulega á þessum tíma, æfingaaðstaða og unglingastarfið hefur verið styrkt verulega. Auðvitað er hluti stuðningsmanna óþolinmóður og vill sjá meiri sénsa tekna á leikmannamarkaði en ég held að þetta sé ákveðinn lykill fyrir lítinn klúbb. Aðhaldsemi í rekstri, skynsemi í leikmannamálum og að byggja upp jafnt og þétt.

Í hvaða sæti mun Palace enda á tímabilinu? Ef við höldum Zaha vona ég að það sé komið að tímabilinu þar sem við náum að enda í efri helmingnum og ætla að spá níuna sæti. Ef hann fer þá gæti þetta orðið brekka og líklega tímabil ákveðinnar enduruppbyggingar. Þá er maður sáttur við allt fyrir ofan 18. sæti.

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner