
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, spáði hárrétt fyrir um úrslit og markaskorara í 3-1 sigri Frakklands á Póllandi í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í dag.
Macron ræddi við Le Parisien um möguleika Frakklands gegn Póllandi.
„Ég held að við vinnum 3-1. Lewandowski mun skora eitt, alveg eins og Mbappe og kannski Giroud sem vill komast í sögubækurnar,“ sagði Macron.
Hann var með allt í teskeið. Kylian Mbappe skoraði tvö mörk fyrir Frakka og Giroud eitt og komst um leið í sögubækurnar og er nú markahæsti leikmaður franska landsliðsins frá upphafi.
Robert Lewandowski minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu seint í uppbótartíma og lokatölur því 3-1.
Þess má þá til gamans geta að spámenn Fótbolta.net, þeir Elías Már Ómarsson og Sverrir Örn Einarsson spáðu báðir fyrir um rétt úrslit. Þeir voru einnig með markaskorara leiksins á hreinu. Magnað dæmi.
Sjá einnig:
Elías Már spáir í Frakkland - Pólland
Athugasemdir