mið 04. desember 2024 22:10
Brynjar Ingi Erluson
England: Varnarmenn Arsenal afgreiddu Man Utd - Villa kláraði Brentford í fyrri hálfleik
Markaskorararnir William Saliba og Jurrien Timber fagna í kvöld
Markaskorararnir William Saliba og Jurrien Timber fagna í kvöld
Mynd: Getty Images
Morgan Rogers og Ollie Watkins áttu frábæran leik með Villa
Morgan Rogers og Ollie Watkins áttu frábæran leik með Villa
Mynd: Getty Images
Ruben Amorim tapaði sínum fyrsta leik með Man Utd
Ruben Amorim tapaði sínum fyrsta leik með Man Utd
Mynd: Getty Images
Arsenal tókst að saxa á forystu toppliðs Liverpool í kvöld með því að vinna Manchester United, 2-0, á Emirates-leikvanginum í Lundúnum, en það voru varnarmenn liðsins sem sáu um að skora mörkin.

Fyrri hálfleikurinn fer ekki í neinar sögubækur. Liðunum tókst ekki að eiga skot á markið og var þetta stál í stál í fyrsta alvöru prófi Ruben Amorim, stjóra Man Utd.

Arsenal tók forystuna snemma í síðari hálfleiknum og þurfti fast leikatriði til þess að opna leikinn.

Declan Rice tók hornspyrnu á nærstöng þar sem Jurrien Timber náði að stýra boltanum með höfðinu og í netið. Ágætur leikur til að skora fyrsta markið fyrir félagið.

Man Utd var nálægt því að svara með jöfnunarmarki eftir rúman klukkutíma er Matthijs De Ligt náði góðum skalla að marki eftir aukaspyrnu Bruno Fernandes en David Raya átti sjónvarpsmarkvörslu til að halda boltanum úr markinu.

Heimamönnum tókst að bæta við öðru rúmum fimmtán mínútum fyrir leikslok og aftur eftir hornspyrnu. Bukayo Saka kom boltanum inn í teiginn á Thomas Partey sem skallaði hann inn á hættusvæðið og á William Saliba sem skoraði.

Öll bestu færin komu eftir föst leikatriði. Arsenal var nálægt þriðja markinu og kom það næstum því beint úr hornspyrnu en Andre Onana náði að bjarga andliti með því að kýla boltann frá.

Arsenal sigldi þessu örugglega heim og er liðið komið upp í 3. sæti með 28 stig, sjö stigum frá toppliði Liverpool. Manchester United, sem var að tapa fyrsta leik sínum undir Amorim, er í 11. sæti með 19 stig.

Aston Villa gerði út um leikinn í fyrri hálfleik

Aston Villa vann góðan 3-1 sigur á Brentford á Villa Park, en öll þrjú mörk Villa komu í fyrri hálfleiknum.

Morgan Rogers skoraði fyrsta mark Villa með glæsilegu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Ollie Watkins. Rogers fékk boltann, lagði hann á hægri og skrúfaði boltann yfir Mark Flekken í markinu.

Watkins tvöfaldaði forystuna með marki úr vítaspyrnu á 28. mínútu áður en Matty Cash gerði þriðja markið með föstu skoti á fjær eftir fyrirgjöf Rogers.

Mikkel Damsgaard tókst að klóra í bakkann fyrir Brentford á 54. mínútu leiksins.

Á lokamínútunum var Villa líklegra til að bæta við fleiri mörkum en Brentford að komast inn í leikinn. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og lokatölur því 3-1 Villa í vil.

Villa fer upp í 7. sætið með 22 stig en Brentford í 9. sæti með 20 stig.

Arsenal 2 - 0 Manchester Utd
1-0 Jurrien Timber ('54 )
2-0 William Saliba ('73 )

Aston Villa 3 - 1 Brentford
1-0 Morgan Rogers ('21 )
2-0 Ollie Watkins ('28 , víti)
3-0 Matty Cash ('34 )
3-1 Mikkel Damsgaard ('54 )
Athugasemdir
banner
banner
banner