Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 10. desember 2024 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappe: Kom hingað til að vinna Meistaradeildina
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Franska ofurstjarnan Kylian Mbappé hefur legið undir gagnrýni á upphafsmánuðum sínum hjá spænska stórveldinu Real Madrid.

Hann segist þó ekki hafa áhyggjur af framtíðinni, hann er enn að aðlagast nýju liði og nýrri deild.

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila fyrir Real Madrid síðan ég var barn. Ég er ótrúlega ánægður að vera hérna og hlakka mjög til framtíðarinnar. Mér var tekið eins og konungi hérna þó að ég hafi aldrei gert neitt fyrir Real Madrid. Ég fékk virkilega ótrúlegar móttökur," sagði Mbappé.

„Þetta hefur ekki verið besta mögulega byrjunin fyrir mig eða fyrir liðið, en við erum ennþá hérna. Við erum ennþá að berjast um alla titla. Hjá Real Madrid þá er seinni partur tímabilsins sá mikilvægasti.

„Ég skipti yfir til Real Madrid til að vinna Meistaradeildina, þetta er besta félagið til þess. Ég þrái að vinna þessa keppni. Ég óska PSG alls hins besta, en ég vil vinna Meistaradeildina og ég vil vinna hana með Real Madrid."


Mbappé var einnig spurður út í aðra hluti í viðtali við Clique TV, meðal annars Lionel Messi og ákveðna tískubylgju sem er kölluð 'project Mbappé'. Í þessari tískubylgju láta foreldrar börnin sín æfa óhóflega mikið í tilraun til að skapa næstu fótboltastjörnu, eða næsta Mbappé.

„Messi er ótrúlegur fótboltamaður. Hann gerir allt vel og maður getur lært svo mikið af honum. Ég fór oft upp að honum til að spyrja hvernig hann gerði hina ýmsu hluti sem hann gerir á vellinum.

..Varðandi project Mbappé vil ég að fólk hætti þessu strax... foreldrar mínir neyddu mig ekki til neins, þeir leyfðu mér að hafa gaman. Þó að þú neyðir 8 ára son þinn til að hlaupa 18 hringi í kringum völlinn þá þarf það ekki að vera jákvætt fyrir hans metnað eða hæfileika."

Athugasemdir
banner
banner