Hinn 17 ára gamli Willian Estevao átti magnað tímabil með Palmeiras í brasilíska boltanum í ár þar sem hann kom að 31 mörkum í 50 leikjum. Hann var því valinn sem efnilegasti leikmaður brasilísku deildarinnar eftir að tímabilinu lauk á dögunum, auk þess að vera valinn sem besti sóknarleikmaður tímabilsins.
Þetta eru ótrúlegar tölur fyrir svo ungan fótboltamann, en Estevao er svo hæfileikaríkur að hann er kallaður 'Messinho' í heimalandinu.
Leikstíll hans svipar mjög mikið til Lionel Messi, þar sem þeir eru báðir lágvaxnir, snöggir, afar teknískir og með baneitraðan vinstri fót.
Það er þó ekkert kapphlaup í gangi um kaup á þessum bráðefnilega leikmanni því hann er búinn að samþykkja að ganga til liðs við Chelsea eftir 18. afmælisdaginn sinn.
Chelsea greiðir um 35 milljónir evra fyrir Willian, en sú upphæð getur hækkað upp í 60 milljónir með árangurstengdum aukagreiðslum.
Estevao skoraði 3 mörk í 5 leikjum fyrir U17 landslið Brasilíu og hefur nú þegar tekið þátt í 4 leikjum fyrir A-landsliðið.
Talið er að Estevao sé búinn að samþykkja sjö ára samning hjá Chelsea, sem myndi halda honum hjá félaginu til 2032.
Athugasemdir