Arsenal vinnur að því að fá Cunha - Van Dijk ekki ánægður með tilboðið - Rodri vill fá Williams til City
   mið 04. desember 2024 22:46
Brynjar Ingi Erluson
Slot um Salah: Vonum og búumst við því að hann haldi áfram að gera þetta í langan tíma
Mynd: EPA
Arne Slot, stjóri Liverpool, segist vonast og búast við því að halda egypska sóknarmanninum Mohamed Salah í langan tíma, en þetta sagði hann eftir 3-3 jafnteflið gegn Newcastle United í kvöld.

Salah hefur verið í skuggalegu formi á þessu tímabili en hann er með 13 mörk og 8 stoðsendingar í deildinni. Enginn leikmaður hefur komið að fleiri mörkum en hann og bætti hann þá um leið met Wayne Rooney er hann skoraði og lagði upp í 37. sinn í deildinni.

Samningamál Salah hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur, en leikmaðurinn segist ekki hafa fengið samningstilboð frá félaginu og er að búast við því að þetta sé hans síðasta tímabil, en Slot vonast til að halda honum áfram.

„Við erum bæði að vonast eftir því og búast við því að hann geti haldið áfram að gera þetta í langan tíma. Hann var framúrskarandi í síðari hálfleiknum og gerði marga sérstaka hluti fyrir okkur,“ sagði Slot.

Hollendingurinn talaði þá um leikinn en það voru blendnar tilfinningar yfir frammistöðunni í heild sinni.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Við vorum stórkostlegir í seinni hálfleik en ekki nógu góðir í fyrri. Kannski verðskuldaði leikurinn 3-3 jafntefli.“

„Þeir voru virkilega grimmir og neyddu okkur til að gera mistök, en við vorum svo miklu betri í síðari. Ég vissi að leikurinn gæti breyst því við vorum svo miklu betri á boltann.“

„Eftir þessa viku sem við áttum þá vissum við að við gætum breytt leiknum sem er auðvitað mjög jákvætt og í hvert einasta sinn sem við þurfum á Mo Salah að halda þá skorar hann mark,“
sagði Slot enn fremur.

Liverpool er áfram á toppnum með 35 stig, sjö stigum meira en Chelsea og Arsenal.
Athugasemdir
banner