mán 05. júlí 2021 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Völsungur 2013, Tindastóll 2014 og Víkingur Ólafsvík 2021
Lengjudeildin
Víkingur Ólafsvík hefur ekkert getað.
Víkingur Ólafsvík hefur ekkert getað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liðið er með eitt stig.
Liðið er með eitt stig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Ólafsvík hefur ekkert getað í sumar en liðið er á botni Lengjudeildarinnar með aðeins eitt stig.

Liðið tapaði síðasta leik sínum gegn Þrótti R. í fallbaráttuslag, 7-0. Rætt var um Ólsara og þeirra gengi í útvarpsþættinum síðasta laugardag.

„Það er ekki hægt að mótmæla því að Víkingur Ólafsvík sé langlélegasta liðið í þessari deild... svo kemur tilkynning frá Ólsurum í gær (á föstudag) að Gunni Einars væri horfinn á braut. Þetta gekk engan veginn þessi tilraun hans og félagsins að fækka útlendingum og fá inn unga leikmenn. Það gekk engan veginn upp, algjör martröð þetta tímabil hjá Ólsurum," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Þegar þú tapar svona, þá eru leikmenn að bregðast þjálfaranum, félaginu... það er ekki verið að leggja sig fram þegar þú tapar 0-7 á móti Þrótti."

Tómas Þór Þórðarson segir að Ólsarar séu á pari við lélegustu lið sem hafi spilað í næst efstu deild.

„Ég held því miður að þeir hafi verið að leggja sig fram, þeir eru bara ekkert eðlilega lélegir. Þessi þriggja mínútna og 30 sekúndna þrenna hjá Kairo, þetta er allt úr skyndisóknum. Þeir eru vandræðalega lélegir. Þeir eru ógeðslega lélegir. Þeir eru á pari við... þetta er Völsungur 2013, Tindastóll 2014 og Víkingur Ólafsvík 2021; verstu lið í sögu næst efstu deildar," sagði Tómas.

„Svo er hver leikmaðurinn á fætur öðrum núna að stökkva frá borði, flýja sökkvandi skip," sagði Elvar.

„Eðlilega, þetta er dautt og grafið dæmi. Þeir þurfa að fara niður í 2. deild og endurskipuleggja sig," sagði Tómas. „Í hverri umferð er það bara hvað lið fær stigin þrjú gegn Ólafsvík... reynið að spara eins og þið getið og endurskipuleggið ykkur í C-deild á næstu leiktíð."

Guðjón Þórðarson er tekinn við Ólsurum á nýjan leik og gerði hann samning út næsta tímabil. Guðjón stýrði Víkingum á síðasta tímabili og hafnaði í 9. sæti Lengjudeildarinnar áður en hann hætti með liðið.

Fyrsti leikur Guðjóns með liðið verður gegn Gróttu í kvöld.
Útvarpsþátturinn - Íslenski boltinn og Ítalía á EM
Athugasemdir
banner
banner
banner