Danska félagið FCK er komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 3-0 sigur á Istanbul Basaksehir í kvöld á meðan Shakhtar Donetsk vann Wolfsburg örugglega, 3-0.
Tyrknesku meistararnir í Istanbul Basaksehir unnu fyrri leikinn 1-0 í Tyrklandi fyrir um það bil fimm mánuðum síðan en það gekk þó lítið upp hjá þeim í kvöld.
Jonas Wind kom FCK yfir á 4. mínútu leiksins með skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf fra Guillermo Varelas. Wind var aftur á ferðinni á 53. mínútu er hann tvöfaldaði forystuna með marki úr vítaspyrnu.
Rasmus Falk gulltryggði svo sigur FCK níu mínútum síðar með skoti fyrir utan teig. Hann skaut boltanum meðfram jörðinni í hægra hornið og mátti setja spurningarmerki við markvörsluna hjá Mert Gonuk.
3-0 sigur FCK staðreynd og liðið örugglega í 8-liða úrslit. Ragnar Sigurðsson var ekki með FCK í dag vegna meiðsla.
Leikur Shakhtar og Wolfsburg var afar áhugaverður. Davit Khocholava fékk að líta rauða spjaldið í liði Shakhtar á 68. mínútu. Afar harður dómur en hann renndi sér í tæklingu á Joao Victor, sem hélt jafnvægi en datt svo nokkrum sekúndum síðar.
Tveimur mínútum síðar var John Brooks rekinn af velli með sitt annað gula spjald og þar með rautt. Undir lok leiksins ákvað úkraínska liðið að taka völdin og skoraði liðið þrjú mörk á fjórum mínútum.
Junior Moraes gerði fyrsta markið á 89. mínútu. Manor Salomon gerði annað markið tveimur mínútum síðar og gulltryggði svo Moares sigurinn á 93. mínútu.
Shakhtar fer því áfram í 8-liða úrslit og vann einvígið örugglega, 5-1.
Úrslit og markaskorarar:
FC Kobenhavn 3 - 0 Istanbul Basaksehir
1-0 Jonas Wind ('4 )
2-0 Jonas Wind ('53 , víti)
3-0 Rasmus Falk ('62 )
Shakhtar D 3 - 0 Wolfsburg
1-0 Junior Moraes ('89 )
2-0 Junior Moraes ('90 )
3-0 Manor Solomon ('90 )
Rautt spjald: ,Davit Khocholava, Shakhtar D ('68)John Brooks, Wolfsburg ('70)
Athugasemdir