Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 05. september 2020 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Jóhann Berg er einn af okkar bestu leikmönnum"
Stuðningsmaður Burnley - Samuel Collins
Sam og faðir hans á leik hjá Burnley.
Sam og faðir hans á leik hjá Burnley.
Mynd: Úr einkasafni
Ben Mee í leik gegn Man City á síðasta tímabili.
Ben Mee í leik gegn Man City á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Getty Images
Burnley fagnar marki á síðustu leiktíð.
Burnley fagnar marki á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Burnley er spáð 12. sæti deildarinnar.

Erfitt var að finna Burnley mann á Íslandi og leituðum því út fyrir landssteinana að stuðningsmanni Burnley. Sá heitir Samuel Collins og er efnilegur fjölmiðlamaður.

Ég byrjaði að halda með Burnley af því að... Pabbi minn og afi minn eru stuðningsmenn liðsins. Því lá það beinst við að ég yrði stuðningsmaður liðsins. Ég byrjaði að styðja liðið almennilega þegar ég var 11 ára.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var auðvitað skrítið út af Covid-19, en mér fannst við eiga heilt yfir sterkt tímabil þar sem við lentum í tíunda sæti. Ég sé hins vegar ekki fram á að við endum eins ofarlega á komandi tímabili.

Ferðu oft á völlinn hjá þínu félagi? Þar sem ég bý rúmlega 200 kílómetrum frá Turf Moor þá fer ég ekki á eins marga leiki og ég vil fara. Ég reyni að fara samt á fimm heimaleiki á hverju tímabili.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Ben Mee. Hann hefur sýnt mikla tryggð við félagið og er frábær varnarmaður. Hann hefur bjargað okkur oft og við getum alltaf treyst á að hann skili góðri frammistöðu.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Ég væri alveg til í að losna við Matej Vydra. Hann er góður leikmaður og hefur gert fína hluti fyrir okkur, en hann spilar ekki mikið og ég tel að hann henti ekki alveg leikkerfi Dyche og Burnley.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Fylgist með Josh Brownhill. Hann var mjög öflugur eftir að boltinn byrjaði aftur að rúlla eftir Covid-pásuna og ég tel að hann geti orðið byrjunarliðsmaður mjög fljótt. Hann er 'box-to-box' miðjumaður sem hentar liðinu mjög vel.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Ef ég mætti velja hvern sem er þá myndi ég velja á milli Aguero, Kante og Van Dijk. Ef ég ætti að velja raunhæfan kost þá myndi ég líklega taka bakvörð þar sem Lowton er meiðslagjarn. Ég myndi kannski taka Max Aarons frá Norwich. Ég gæti einnig hugsað að fá sóknarmiðjumann og þá væri Phil Foden góður kostur.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Ég held að enginn Burnley maður sé óánægður með stjórann. Fólkið er kannski eins ánægt með stjórnina, en já, ég er mjög ánægður með knattspyrnustjórann.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Uppáhalds minningin mín er þegar ég pabbi og afi fórum í fyrsta skipti allir saman á leik hjá Burnley. Það var 2015/16 tímabilið þegar við unnum sigur á QPR og komumst í leiðinni upp um deild.

Hvað finnst þér um Jóhann Berg? Hann er einn af okkar bestu leikmönnum, og hann er bara frábær leikmaður. Hann þarf að halda sér heilum en þegar hann er heill þá er hann fyrsti kostur okkar á hægri kantinn. Vonandi gefur hann liðinu það á þessu tímabili sem stuðningsmenn vita að hann er fær um að gefa liðinu.

Í hvaða sæti mun Burnley enda á tímabilinu? Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega, en ég myndi segja einhvers staðar á milli 11 og 15. Ef ég ætti að giska á eitthvað eitt sæti þá myndi ég líklega segja 12. sæti. Við verðum ekki í fallhættu en við höfum ekki styrkt okkur neitt og það verður erfitt hjá okkur að gera betur en á síðasta tímabili.

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna

Athugasemdir
banner
banner