Varnarmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson samdi á dögunum við danska B-deildarfélagið Horsens eftir að hafa spilað með Plymouth á Englandi, en hann er að snúa aftur í danska boltann eftir átta ára fjarveru.
Guðlaugur Victor náði samkomulagi við Plymouth um að rifta samningi sínum og gerði í kjölfarið tveggja ára samning við Horsens.
Landsliðsmaðurinn er með sterkar tengingar til Danmerkur, en þar hóf hann feril sinn með AGF og sneri síðan aftur árið 2015 þar sem hann lék með Esbjerg í tvö ár.
„Hún er bara mjög góð. Ég er smá kominn heim, þó ég sé heima núna, þá hef ég tengingar til Danmerkur, verið þar mikið og byrjaði minn feril þar. Ég er á lokahringnum eða svona þannig, en bara mjög ánægður með þessi skipti,“ sagði Guðlaugur við Fótbolta.net.
Horsent er á toppnum í dönsku B-deildinni og nýlega búið að skipta um eigendur, en Guðlaugur segir mikinn metnað hjá þeim um að koma liðinu aftur í efstu hillu.
„Það eru spennandi tímar framundan í Horsens og verkefnið þar. Það eru nýir eigendur sem eru búnir að fjárfesta mikið í félaginu og seldu mér að koma og hjálpa þeim að fara upp, og nái að koma jafnvægi á liðið í efstu deild í Danmörku.“
„Það er búið að fjárfesta mikið í félaginu og leikmannahópnum. Það er spennandi fólk að vinna hjá klúbbnum, með spennandi þjálfara og yfirmann íþróttamála. Fyrstu áhrif eru mjög góð“ sagði hann.
Guðlaugur talaði um að hann væri á lokahringnum, en segist ekki vera að íhuga að leggja skóna á hilluna á næstunni.
„Við erum ekkert að verða yngri en ég gerði tveggja ára samning, líkaminn er fínn og hungrið til staðar. Við tökum þetta bara einn dag í einu.“
Athugasemdir