
Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður Venezia og íslenska landsliðsins, segir að Ísland verði að vinna Aserbaídsjan á föstudag ætli liðið sér að komast á HM.
Leikurinn gegn Aserbaídsjan er mikilvægur upp á framhaldið í riðlinum.
Þó þetta sér fyrsti leikurinn þá er mikilvægt að taka öll stigin, en á pappírnum er Aserbaídsjan slakasta lið riðilsins.
Bjarki Steinn er klár í verkefnið og segir andann í hópnum afar góðan.
„Hann er mjög góður og held að allir séu mjög klárir. Það eru allir klárir að vera 100 prósent og taka þrjú stig á föstudag.“
„Ef við ætlum að gera okkur gildandi og komast á HM þá er þetta skyldusigur. Við verðum að horfa á það þannig.“
Hópurinn er allur að koma til og hugmyndafræði Arnars Gunnlaugssonar farin að smitast í liðið.
„Við erum búnir að hafa nokkra glugga til að slípa þetta til og koma hugmyndunum hans Arnars inn í þetta. Við vonumst til þess að það komi allt saman á föstudaginn.“
Ertu með persónuleg markmið í þessum glugga?
„Ég er alltaf klár í að spila og gera vel fyrir liðið. Það eina sem skiptir máli er að ná í stigin sem við viljum.“
Bjarki segist finna fyrir áhrifum Arnars og að liðið sé á réttri vegferð.
„100 prósent. Með hverjum glugganum er stigvaxandi og ég sé það á andanum í liðinu að menn eru klárir að berjast fyrir hvorn annan og gera þetta vel.“
Spennandi hópur með spennandi leikmenn og því ekkert til fyrirstöðu að mæta á völlinn?
„Ég vonast til að sjá sem flesta. Þetta er spennandi lið og vonandi getum við sýnt hvað við getum,“ sagði Bjarki um landsliðið en hann ræðir einnig um dvöl sína hjá Venezia og byrjun tímabilsins.
Athugasemdir