Glugginn í Sádi-Arabíu er enn opinn - Onana, Sterling, Disasi, Santos og Silva orðaðir við félög þaðan
   fim 04. september 2025 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Verður fyrirliði Íslands í næstu leikjum - „Hann er alvöru sigurvegari"
Icelandair
Hákon Arnar á landsliðsæfingu.
Hákon Arnar á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður með fyrirliðaband Íslands í næstu leikjum.
Verður með fyrirliðaband Íslands í næstu leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framundan hjá íslenska landsliðinu eru fyrstu leikirnir í undankeppni HM. Strákarnir ætla sér að vera með í veislunni í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó næsta sumar.

Hákon Arnar Haraldsson verður með fyrirliðaband Íslands í leikjunum tveimur gegn Aserbaídsjan og Frakklandi. Hann er gríðarlega spenntur.

„Ég get eiginlega ekki beðið. Það eru loksins alvöru leikir sem skipta miklu máli. Við byrjum heima á móti Aserbaídsjan og ef við ætlum á HM, þá þurfum við að vinna það. Ég get ekki beðið eftir því að hitta strákana og byrja, sagði Hákon við Fótbolta.net og Livey á dögunum.

Hákon spilar með Lille í Frakklandi. „Það verður eitthvað að mæta Frökkunum. Þetta er eitt besta lið heims, ef ekki það besta. Það verður alvöru próf," segir hann.

Strákarnir hafa verið á nýrri vegferð undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar. Hákoni líst vel á það sem hefur verið að gerast.

„Mér líst mjög vel á þetta. Við spiluðum mjög flottan leik gegn Skotum en hefðum getað gert betur gegn Norður-Írum. Núna byrjar alvaran og menn verða að sýna hvað þeir geta. Við verðum að þjappa okkur saman og vinna Aserbaídsjan. Svo sjáum við hvað gerist gegn Frökkum. Mér líst mjög vel á þetta, öðruvísi áherslur. Ég er spenntur," sagði þessi öflugi leikmaður og bætti við:

„Arnar hefur komið mjög vel inn í þetta, hann er alvöru sigurvegari og sterkur karakter. Það er mjög gaman að vinna með honum. Vonandi förum við á HM."

Kom á óvart
Hákon segir að það hafi komið sér á óvart þegar Arnar tilkynnti honum að hann væri orðinn varafyrirliði liðsins. Orri Steinn Óskarsson og Hákon, gömlu liðsfélagarnir hjá FC Kaupmannahöfn, eru núna í fyrirliðahóp Íslands.

„Þetta kom á óvart. Ég bjóst ekki alveg við þessu strax. Við höfum náð einum glugga saman. Annað hvort er hann meiddur eða ég. Það er gaman að geta verið með góðvini sínum í svona hóp," segir Hákon en því miður meiddist Orri á dögunum og verður ekki með í þessum leikjum.

„Þetta er erfiður riðill sem við erum í. Ef við ætlum að gera eitthvað þá verðum við að vinna svona leiki heima," sagði Hákon að lokum um leikinn gegn Aserbaídsjan.


Athugasemdir
banner