Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 05. nóvember 2020 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Adam píndi sig áfram og sýpur seyðið af því - „Maður vill ekki bregðast liðinu"
Adam Örn Arnarson í leik með Tromsö. Hann hefur glímt við meiðsli frá því í upphafi tímabils
Adam Örn Arnarson í leik með Tromsö. Hann hefur glímt við meiðsli frá því í upphafi tímabils
Mynd: Rune Stoltz Bertinussen
 Í Póllandi voru æfingarnar alltaf langar þó svo að við gerðum ekkert sérstaklega mikið.
Í Póllandi voru æfingarnar alltaf langar þó svo að við gerðum ekkert sérstaklega mikið.
Mynd: Adam Örn Arnarson
Það má kannski segja að minn versti eiginleiki sé að ég hlusta ekki betur á eigin líkama.
Það má kannski segja að minn versti eiginleiki sé að ég hlusta ekki betur á eigin líkama.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kannski ég búist við of miklu af dómurum en væri gaman ef þeir gætu skilið leikinn aðeins betur.
Kannski ég búist við of miklu af dómurum en væri gaman ef þeir gætu skilið leikinn aðeins betur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er meiddur og er búinn að vera síðan í fjórðu umferð," sagði Adam Örn Arnarson, leikmaður Tromsö, við Fótbolta.net.

Adam er varnarmaður sem gekk í raðir Tromsö fyrir tímabilið eftir veru hjá pólska félaginu Gornik Zabrze. Tromsö er í efsta sæti OBOS-deildarinnar í Noregi, næstefstu deildar.

Nær vonandi síðustu tveimur leikjunum
Adam hefur ekki verið í leikmananhópi Tromsö síðan 24. ágúst þegar liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Sogndal í 11. umferð deildarinnar. Adam hefur þá ekki leikið 90 mínútur síðan í 4. umferð.

„Við vorum í meiðsla vandræðum þannig það var smá þrýstingur á mig í næstu leikjum eftir það. Með því ágerðust meiðslin og ég er ennþá að jafna mig."

Gæti það farið svo að Adam leiki ekki meira með Tromsö það sem eftir lifir móti?

„Ég veit það ekki alveg. Vonandi næ ég kannski tveimur leikjum en það gæti verið að ég verði frá út tímabilið."

Tvisvar byrjað að æfa of snemma
Eftir fjórðu umferðina hvíldi Adam í einn leik, tók svo þátt í einum en hvíldi aftur annan leik. Í kjölfarið fylgdu fjórir leikir þar sem Adam hefur komið við sögu - sá síðasti gegn Sogndal. Hvað er það sem er að hrjá Adam?

„Málið er að ég hef tvisvar byrjað of snemma að æfa. Það tók svo langan tíma að finna út hvað var að mér og þá var skaðinn skeður. Sjúkraþjálfarinn hélt að þetta væri bara krampi í lærinu en ég var að díla við meiðsli í sininni."

„Vegna þess að hann hélt að þetta væri krampi og væri ekki hættulegt þá hélt ég áfram að pína mig sem svo gerði það að verkum að ég hef glímt við krónísk meiðsli á sin. Það tekur langan tíma að jafna sig á slíkum meiðslum."

„Það voru mistök hjá mér að segja ekki bara stopp í byrjun. Þetta urðu með því sameiginleg mistök hjá mér og sjúkraþjálfaranum. Sú staða að við vorum með þunnan hóp á þessum tíma ýtti líka undir að ég píndi mig áfram. Það má kannski segja að minn versti eiginleiki sé að ég hlusta ekki betur á eigin líkama. En ég held að allir leikmenn skilji og þekki það hversu erfitt er að segjast ekki geta spilað því maður vill ekki bregðast liðinu."


Ætluðum okkur alltaf upp
Tromsö er með átta stiga forskot á þriðja sætið þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni. Efstu tvö liðin vinna sér inn sæti í Eliteserien á komandi leiktíð. Liðið hefur aðeins hikstað að undanförnu og einungis unnið tvo af síðustu sex leikjum. Var alltaf markmiðið að fara upp um deild?

„Við ætluðum okkur alltaf upp. Við höfum verið alveg ótrúlega óheppnir með meiðsli á þessu tímabili, en mér finnst það sýna það að við erum besta liðið í þessari deild að þrátt fyrir öll meiðslin í liðinu þá erum við ennþá efstir."

„Í síðustu leikjum höfum við spilað á móti bæði Lilleström og Sogndal á útivelli og með þau meiðsli sem við erum að díla við, plús leikbönn, þá voru þeir leikir bara mjög erfiðir fyrir okkur."


Gerðu ekkert sérstaklega mikið þó æfingin væri löng
Í viðtali við Fótbolta.net í apríl sagði hann: „Fyrsta æfingin mín var draumur eftir það sem ég hafði upplifað á æfingum í Póllandi."

Adam var þarna að tala um fyrstu æfinguna hjá Tromsö þegar hann fór til félagsins á reynslu snemma árs. Adam var spurður út í samanburðin á æfingum hjá Tromsö og hjá Gornik.

„Það var bara mun meira tempó á æfingunni, mikið betur skipulögð og ekki svo mikið af dauðum tíma. Í Póllandi voru æfingarnar alltaf langar þó svo að við gerðum ekkert sérstaklega mikið."

Væri gaman ef dómarar skildu leikinn aðeins betur
Twitter-færsla Adams vakti athygli í sumar. Hann gagnrýndi þar dómara á Íslandi. Hvernig er dómgæslan í Noregi samanborin við það sem hann sér á Íslandi?

„Dómgæslan í Noregi er kannski aðeins betri en samt sem áður ekki frábær. Kannski ég búist við of miklu af dómurum en væri gaman ef þeir gætu skilið leikinn aðeins betur."

Ætlar að byrja á því að ná sér heilum
Adam var að lokum spurður út í framhaldið á sér og samningsstöðu sína. Hvernig er staðan á hans málum, verður hann áfram hjá Tromsö eftir þetta tímabil?

„Ég er með samning út næsta ár. Það er ekkert búið að ræða neitt um framhaldið eftir það. Ég er búinn að vera meiddur síðan í fjórðu umferð þannig að maður þarf að byrja á því að vera heill áður en maður getur farið að hugsa um framhaldið," sagði Adam að lokum.
Athugasemdir
banner
banner