Arsenal, Chelsea og Man Utd hafa áhuga á Vlahovic - Liverpool reynir að halda stjörnunum - City gæti krækt í Zubimendi
   þri 05. nóvember 2024 16:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vangaveltur
Þrjár endurkomur í landsliðið og hvað með Gylfa?
Icelandair
Kristian Nökkvi er mættur aftur á völlinn og gæti snúið aftur í landsliðið.
Kristian Nökkvi er mættur aftur á völlinn og gæti snúið aftur í landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður Gylfi í hópnum?
Verður Gylfi í hópnum?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Endurkoma í landsliðið hjá Aroni?
Endurkoma í landsliðið hjá Aroni?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex er varamarkmaður FCK. Snýr hann aftur í landsliðið vegna meiðsla Patriks?
Rúnar Alex er varamarkmaður FCK. Snýr hann aftur í landsliðið vegna meiðsla Patriks?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Hjörtur hefur ekki verið í hópnum hjá Carrerese í síðustu fimm leikjum.
Hjörtur hefur ekki verið í hópnum hjá Carrerese í síðustu fimm leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrik meiddist í leik með Kortrijk í lok síðasta mánaðar.
Patrik meiddist í leik með Kortrijk í lok síðasta mánaðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Ingvi fór af velli eftir rúmlega klukkutíma leik í gær eftir að hafa fyrr í leiknum orðið fyrir hörku tæklingu.
Arnór Ingvi fór af velli eftir rúmlega klukkutíma leik í gær eftir að hafa fyrr í leiknum orðið fyrir hörku tæklingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á morgun, miðvikudag klukkan 13:00, verður landsliðshópur Íslands fyrir leiki karlaliðsins gegn Svartfjallalandi og Wales í Þjóðadeildinni kynntur. Báðir leikirnir fara fram ytra og á Ísland ennþá möguleika á 2. sæti riðilsins sem myndi þýða umspil um að komast aftur upp í A-deildina.

Ísland spilaði í A-deildinni í fyrstu tveimur Þjóðadeildunum en í síðustu tveimur hefur liðið verið í B-deildinni. Liðið í 2. sæti riðlanna í B-deildinni fer í umspil við liðin sem enda í 3. sæti í riðlunum í A-deildinni.

Fyrir komandi landsliðsval eru nokkur spurningar. Hverjir eru meiddir? Hverjir eru að snúa aftur? Svörin fáum við á morgun en hér eru nokkrar vangaveltur og mögulegur 23 manna hópur.

Markmennirnir:
Frá síðustu landsleikjum hefur Hákon Rafn ekkert spilað með liði sínu Brentford. Hann var settur á bekkinn í deildabikarnum á dögunum, í keppni þar sem hann hafði spilað fyrstu tvo leikina.

Elías Rafn heldur áfram að verja mark Midtjylland í Danmörku en Patrik hefur glímt við meiðsli og misst af síðustu þremur leikjum Kortrijk í Belgíu.

Fyrstu tíðindi af meiðslunum voru á þá leið að þau ættu ekki að vera það alvarleg. En ef Patrik verður ekki kominn til baka í tæka tíð þá gæti Age Hareide horft til Rúnars Alex Rúnarssonar sem hefur ekki verið í hópnum á þessu ári, Lúkasar Petersson í U21 landsliðinu eða jafnvel Antons Ara Einarssonar sem átti frábært tímabil með Íslandsmeistaraliði Breiðabliks.

Varnarmenn:
Kolbeinn byrjaði sinn fyrsta leik með Utrecht frá komu sinni í síðustu viku. Logi Tómasson heldur áfram að spila vel með Strömsgodset.

Daníel Leó er fastamaður í SönderjyskE og Sverrir Ingi hjá PAOK, Guðlaugur Victor hefur spilað síðustu tvo leiki Plymouth.

Valgeir Lunddal hefur glímt við meiðsli en sneri til baka í síðasta leik Düsseldorf. Alfons Sampsted er þá kostur númer tvö hjá Birmingham í hægri bakverðinum.

Þeir Bjarki Steinn Bjarkason, sem spilaði vináttuleikina í júní, og Hörður Björgvin Magnússon eru ekki byrjaðir að spila eftir meiðsli.

Hjörtur Hermannsson hefur ekki verið í hópnum í síðustu fjórum leikjum Carrarese á Ítalíu. Ef hann er ekki klár í slaginn þá gæti Hareide horft í Brynjar Inga Bjarnason hjá Ham-Kam eða horfi í gamla fyrirliðann ef Aron Einar Gunnarsson er möguleiki í miðvörð. Aron hefur byrjað alla þrjá leiki Al-Gharafa í Meistaradeild Asíu.

Davíð Kristján Ólafsson minnti þá á sig á dögunum þegar hann skoraði þrennu í pólsku úrvalsdeildinni, spurning hvort hann snúi aftur í hópinn?

Miðjumenn:
Það vekur athygli að Kristian Nökkvi Hlynsson var ekki valinn í U21 landsliðið fyrir komandi verkefni. Það hlýtur að þýða að Kristian snúi aftur í aðalliðið eða að ákveðið hafi verið að gefa honum hvíld í landsleikjaglugganum. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann verði í hlutverki með Ajax gegn Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni á fimmtudag. Hann spilaði með Jong Ajax, varaliðinu, á dögunum. Það var hans fyrsti leikur eftir meiðsli.

Willum Þór er að spila frábærlega með Birmingham um þessar mundir, Mikael Anderson er lykilmaður í liði AGF, Stefán Teitur kemur oftast við sögu hjá Preston en kom ekki inn á gegn Bristol City um helgina, Arnór Ingvi hjálpaði Norrköping að halda sér í sænsku úrvalsdeildinni í gær en fór af velli eftir rúman klukkutíma í gær.

Jóhann Berg spilar allar mínútur með Al-Orobah í Sádi-Arabiu, Jón Dagur er í hlutverki hjá Hertha Berlin en er ekkert að spila neitt sérstaklega mikið. Mikael Egill er þá í nokkuð stóru hlutverki hjá Venezia í Serie A.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði ekki gegn Tyrklandi í síðasta landsleik og var hann ekki sáttur með að fá ekki að sjá grasið. Það er spurning hvort að hann verði í hópnum á morgun, sættir hann sig við að vera mögulega í hlutverki varamanns?

Arnór Sigurðsson fékk hvíld í síðasta landsliðsverkefni og missir af komandi leikjum vegna meiðsla. Hákon Arnar Haraldsson er áfram fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Sóknarmenn:
Orri Steinn er áfram að vinna sig inn í spænska úrvalsdeildarliðið Real Sociedad, hann fékk mínútur í öflugum sigri um helgina. Andri Lucas hefur byrjað fjóra af síðustu fimm leikjum Gent í Belgíu.

Brynjólfur kom ekki við sögu í landsleikjunum í síðasta glugga, hans fyrsta verkefni með landsliðinu í keppnisleikjum. Hann er ekki með öruggt sæti í landsliðshópnum.

Albert Guðmundsson er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.


Mögulegur hópur
Markverðir:
Elías Rafn Ólafsson - FC Midtjylland
Rúnar Alex Rúnarsson - FC Kaupmannahöfn
Hákon Rafn Valdimarsson - Brentford F.C.

Varnarmenn:
Kolbeinn Birgir Finnsson - FC Utrecht
Logi Tómasson - Stromsgodset Toppfotball
Daníel Leó Grétarsson - Sonderjyske Fodbold
Aron Einar Gunnarsson - Al-Gharafa
Guðlaugur Victor Pálsson - Plymouth Argyle F.C.
Sverrir Ingi Ingason - Panathinaikos F.C.
Valgeir Lunddal Friðriksson - Fortuna Düsseldorf
Alfons Sampsted - Birmingham City F.C.

Miðjumenn:
Willum Þór Willumsson - Birmingham City F.C.
Mikael Neville Anderson - AGF
Stefán Teitur Þórðarson - Preston North End F.C.
Arnór Ingvi Traustason - IFK Norrköping
Jóhann Berg Guðmundsson - Al-Orobah FC
Ísak Bergmann Jóhannesson - Fortuna Düsseldorf
Jón Dagur Þorsteinsson - Hertha BSC
Mikael Egill Ellertsson - Venezia FC
Gylfi Þór Sigurðsson - Valur
Kristian Nökkvi Hlynsson - Ajax

Sóknarmenn:
Andri Lucas Guðjohnsen - K. A. A. Gent
Orri Steinn Óskarsson - Real Sociedad
Athugasemdir
banner