mán 06. mars 2023 22:08
Brynjar Ingi Erluson
England: Ótrúlegt gengi Brentford heldur áfram
Ivan Toney er kominn með fimmtán mörk í deildinni og hefur ekki enn klikkað á punktinum
Ivan Toney er kominn með fimmtán mörk í deildinni og hefur ekki enn klikkað á punktinum
Mynd: Getty Images
Willian fékk gult spjald fyrir dýfu í fyrri hálfleiknum
Willian fékk gult spjald fyrir dýfu í fyrri hálfleiknum
Mynd: Getty Images
Brentford 3 - 2 Fulham
1-0 Ethan Pinnock ('6 )
1-1 Manor Solomon ('39 )
2-1 Ivan Toney ('53 , víti)
3-1 Mathias Jensen ('85 )
3-2 Carlos Vinicius ('90 )

Brentford bar sigur úr býtum gegn Fulham, 3-2, í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar er liðin mættust á Samfélags-leikvanginum í Lundúnum í kvöld. Brentford er nú án taps í síðustu tólf deildarleikjum.

Bernd Leno, markvörður Fulham, fékk lítinn tíma til að koma sér fyrir í markinu því heimamenn gersamlega hófu stórskotahríð á fyrstu mínútum leiksins. Bryan Mbeumo átti tvö dauðafæri og þá varði Leno gott skot Ivan Toney snemma leiks.

Markið lá í loftinu og á 6. mínútu kom það. Fulham hreinsaði hornspyrnu Brentford frá, þó ekki lengra en á Mikkel Damsgaard, sem tók góðan snúning áður en hann lagði boltann inn í teiginn á Ethan Pinnock sem skoraði, Boltinn fór af Tim Ream og gat Leno lítið sem ekkert gert í markinu.

Ellefu mínútum síðar átti Mbeumo aukaspyrnu sem hafnaði í stönginni og aftur fyrir endamörk og gerði Ivan Toney það sama þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.

Fulham refsaði Brentford á 40. mínútu. Andreas Pereira tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn og hafnaði boltinn í samskeytunum og út á Manor Solomon sem skoraði af stuttu færi.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn illa. Issa Diop braut á Christian Norgaard í teignum eftir langt innkast Mathias Jensen í teiginn og var það Toney sem fór á punktinn. Hann skoraði auðvitað úr spyrnunni og er áfram með 100 prósent nýtingu af punktinum í deildinni úr tíu vítum. Fimmtánda deildarmark hans á tímabilinu.

Þegar fimm mínútur voru eftir gulltryggði Jensen sigurinn eftir sendingu frá Kevin Schade. Varamaðurinn Carlos Vinicius minnkaði muninn seint í uppbótartíma en það kom því miður of seint fyrir gestina.

Lokatölur 3-2 Brentford í vil. Brentford hefur nú farið í gegnum tólf deildarleiki án þessa tapa. Liðið er í 9. sæti með 38 stig en Fulham í 7. sæti með 39 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner