mán 06. mars 2023 12:59
Elvar Geir Magnússon
Keppni hafin í færeysku Betri deildinni - Viktor og félagar töpuðu
Mikkel Dahl skorar í öllum leikjum sem hann spilar í Færeyjum.
Mikkel Dahl skorar í öllum leikjum sem hann spilar í Færeyjum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Færeyska Betri deildin, efsta deild færeyska fótboltans, fór af stað um helgina þegar fyrsta umferðin var leikin.

Meistararnir í KÍ í Klaksvík hefja nýtt tímabil af krafti og unnu 7-1 sigur gegn TB í gær. Páll Klettskarð gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk en Rene Joensen, fyrrum leikmaður Grindavíkur, komst einnig á blað hjá KÍ.

Mikkel Dahl, fyrrum leikmaður Leiknis, var meðal markaskorara hjá HB sem vann 4-1 gegn B68. Danski sóknarmaðurinn stóð ekki undir væntingum í Breiðholtinu en kann þá list betur en flestir að skora í Færeyjum. Annar fyrrum leikmaður Leiknis, Emil Berger, kom inn af bekknum í lok leiks en hann gekk nýlega í raðir HB.

Viktor Helgi Benediktsson, eini íslenski leikmaðurinn í deildinni, spilaði seinni hálfleikinn fyrir AB Argir sem tapaði 2-0 gegn EB/Streymur.

Magnus Egilsson, fyrrum leikmaður Vals, skoraði fyrir B36 sem gerði góða ferð til Götu og vann 3-0 útisigur gegn Víkingi. Þá vann 07 Vestur 1-0 sigur gegn Dánjal á Lakjuni og félögum í Fuglafirði.
Athugasemdir
banner
banner
banner